Í morgunútvarpi Rásar 2 hinn 27. apríl sl. var viðtal við Kristján Berg „Fiskikónginn þar sem hann fór hörðum orðum um skítugar umbúðir (kassa og kör) undir fisk.
Sjálfur er ég harður stuðningsmaður þess að sóðum í sjávarútvegi, hvar sem er í virðiskeðjunni, sé refsað harðlega. Fiskveiði er matvælaframleiðsla og snyrtimennska því lykilatriði.
Kristján Berg fór langt fram úr sjálfum sér í viðtalinu. Hann skildi eftir þá tilfinningu hjá þeim sem eru ekki dags daglega að fylgjast með þessum málum að stór hluti sjómanna væru „drullusokkar og ættu að finna sér annað að gera en stunda fiskveiðar.
Það er í þessu sambandi athyglisvert að renna yfir heimasíðu „Fiskikóngsins
Þar er ekki að sjá að nokkur skapaður hlutur sé að. Sigin grásleppa, rauðmagi o.s.frv.
Allt frá trillukörlum.
Í viðtalinu tekur hann fram að þegar strandveiðarnar byrja versni ástandið.
Þetta er athyglisverð fullyrðing. Allir þeir sem þekkja til strandveiðiflotans vita að þessir bátar eiga sín kör sem fara aldrei inn á fiskmarkaðina. Þau eru hífð uppúr bátunum og „kanteruð í svokölluð markaðskör.
Hafi Kristján Berg einhverntíma fengið kör beint úr strandveiðibát þætti mér vænt um að hann gerði grein fyrir því og þá frá hvaða bátum.
Sóðaskapur í matvælaframleiðslu er óafsakanlegur.
Sóðaskapur í málflutningi er það sömuleiðis.
Arthur Bogason formaður
Landssambands smábátaeigenda