Sjómannadagurinn er á sunnudaginn 6. júní. Dagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur 6. júní 1938 og er dagurinn í ár því sá 84. í samfelldri sögu hans.
Í athugasemdum við frumvarp til laga um sjómannadag sem lagt var fram á Alþingi 1986 segir m.a. þetta:
„Í upphafi sögunnar lagði sjómannastéttin og forustumenn hennar ekki megináherslu á að sjómannadagurinn yrði almennur frídagur sjómanna enda var lífsbaráttan lengst af svo hörð að enga stund mátti missa frá því að afla sér og sínum viðurværis.
og síðar í kaflanum
„Nú þegar nær hálf öld er liðin síðan sjómannadagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur sýnist hins vegar tímabært að koma fastri skipan á frí sjómanna þann dag. Væri það táknræn kveðja Alþingis og þjóðarinnar allrar til sjómannastéttarinnar á þessum tímamótum. Í frumvarpi þessu er því slegið föstu að sjómannadagurinn skuli vera almennur frídagur sjómanna.
Frumvarpið var samþykkt samhljóða í Efri deild Alþingis 16. mars 1987.