LS bendir á ónýttar heimildir

Í dag er 8. dagur strandveiða í ágúst.  Veiði hefur verið afar góð og engin dæmi um svo langt samfellt tímabil sem skilað hefur jafn miklum afla.  
Þar sem handfæraveiðar er algjörlega háðar fiskgengd á grunnslóð og veðri er ekki við öðru að búast en vel fiskist þegar þessir þættir spila saman.  Á fyrstu sjö dögum mánaðarins var aflinn að meðaltali 303 tonn á dag, þar af 272 tonn þorskur.  Fjöldi báta á bak við þau tonn voru 569 og landanir 3.069.  
Það hafa því verið ófá handtökin til lands og sjávar sem standveiðar hafa skilað á þessum tíma.
IMG_2223.png
Í lok júlí sýndu útreikningar að menn þyrftu að hafa sig alla við með að ná viðmiðun tímabilsins 11.171 tonni af þorski.  Enginn dagur í maí náði 300 tonnum, í júní var farið yfir þau mörk einu sinni og tvisvar í júlí.
Nú er staðan hins vegar sú að Fiskistofa íhugar hvenær hún á að stöðva strandveiðar, þar sem stofnuninni er skylt að gera slíkt þegar sýnt er að afli nær viðmiðuninni.  Tæpt að vikan náist.
LS ritaði sjávarútvegsráðherra bréf.pdf í síðustu viku þar sem óskað var eftir að hann kæmi að þeim vanda sem blasti við – ótímabær stöðvun strandveiða.  
Ráðherra hefur svarað erindinu þar sem hann bendir á að 
„frádregnar aflaheimildir sem fóru á skiptimarkað vegna yfirstandandi fiskveiðiárs hafa verið fullnýttar og því liggur fyrir að ráðuneytið hefur að lögum engar frekari heimildir til að auka við aflaheimildir til strandveiða.  
LS hefur nú bent á að töluvert af veiðiheimildum sem Fiskistofa hefur til úthlutunar á byggðakvóta til skipa muni að óbreyttu brenna inni.  Á síðasta fiskveiðiári fóru milli 800 og 900 tonn af þorski þá leiðina.  Ráðuneytið hefur verið beðið að koma aftur að málefninu í ljósi þessara upplýsinga.