Loðna – úr nánast engu í 900 þúsund tonn

Þau ánægjulegu tíðindi bárust frá Fornubúðum (höfuðstöðvum Hafrannsóknastofnunar) sl. föstudag að vísitala ungloðnu væri sú þriðja hæsta sem mælst hefur.  Vísitalan árið 1995 á metið, sem skilaði ári síðar (1996/1997) ráðgjöf upp á 1,6 milljónum tonna.  Þar á eftir síðasta ár 2020, sem stefnir í ráðgjöf upp á milljón tonn fyrir yfirstandandi fiskveiðiár 2021/2022.
Screenshot 2021-10-06 at 14.48.19.png
Samkvæmt aflareglu, reiknað útfrá niðurstöðum haustmælinga, er útkoman sú heildarafli fari ekki umfram 904.200 tonn á fiskveiðiárinu 2021/2022.  Þar sem hér er um haustráðgjöf (áður nefnd upphafsráðgjöf) að ræða er nánast öruggt að endanleg ráðgjöf stofnunarinnar verður ekki lægri.  Lokaráðgjöf verður gefin út að loknum leiðöngrum í janúar og febrúar nk.
Til nánari upplýsinga þá var síðasta milljón tonna vertíðin fiskveiðiárið 2002/2003, engin loðna veidd tvö ár í röð 2018/2019 og 2019/2020 og meðaltal sl. sex fiskveiðiára aðeins 148 þús. tonn.
Miðað við 904 þús. tonn koma 627 þús. tonn í aflamark samkvæmt aflahlutdeild þegar búið er að draga 5,3% frá sem fer á skiptimarkað Fiskistofu.  Það er því ærið verkefni sem býður flotans og söluaðila loðnuafurða.