Heimilt verði að sleppa lífvænlegum fiski

Á aðalfundi Strandveiðifélagsins Króks sem haldinn var á Patreksfirði 13. september sl. kviknaði umræða um eftirlit Fiskistofu varðandi brottkast.  Fundarmenn voru á einu máli um að breyta yrði reglum þar um, það gengi ekki að Fiskistofa væri að eyða tíma og fé í að elta menn út af einum smáfiski sem losaður væri af krók og sleppt spriklandi síns heima.  
Fulltrúar frá Króki. Fv. Grímur Grétarsson, 
Halldór Árnason, Einar Helgason, Búi Bjarnason   
IMG_2441.png
Áhyggjur og áherslur Fiskistofu ættu ekki að miðast við slíkt sem skiptir í raun engu máli.  
Handfærabátar keyra úr ruslinu í betri fisk og við línuveiðar væri ekki verið að leggja þar sem von væri á verðlitlu smælki.
Í lögum 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar segir í 2. mgr. 2. gr.
„Skylt er að hirða og landa öllum afla sem kemur í veiðarfæri fiskiskipa. Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að sleppa skuli lifandi afla sem er undir tiltekinni lengd eða þyngd eða fæst í ákveðin veiðarfæri. Þá getur ráðherra með reglugerð 1) ákveðið að heimilt sé að varpa fyrir borð verðlausum fiski og innyflum, hausum og öðru því sem til fellur við verkun eða vinnslu um borð í veiðiskipum.
Króksmenn töldu einsýnt að ráðherra ætti að nýta sér ákvæði laganna með því að setja inn eftirfarandi ákvæði í reglugerð:  
Við krókaveiðar verði heimilt að sleppa lífvænlegum fiski undir 50 cm sem veiddur er á grunnslóð.

              Króksmenn:    Magnús Jónsson, Friðrik Ólafsson, 

          Friðþjófur Jóhannsson og Rut Sigurðardóttir frá Bárunni

IMG_2440.png
Á aðalfundum annarra svæðisfélaga þar sem málefnið bar á góma var tekið undir hugmyndir Króks og ályktanir þar um samþykktar og vísað til aðalfundar.  
Aðalfundur LS tók tillögurnar til umræðu og samþykkti samhljóða að leggja til að við krókaveiðar verði heimilt að sleppa lífvænlegum fiski undir 50 cm sem veiddur er á grunnslóð. 
Samþykkt aðalfundar verður kynnt fyrir ráðherra ásamt því að hún verður send til Fiskistofu.