„Kemur þú ekki örugglega með allan afla að landi?

Fyrirsögnin er tekin úr frétt frá Fiskistofu.  
Það hefur ekki farið framhjá smábátaeigendum að eftirlit Fiskistofu með fjarstýrðum loftförum er afar virkt.  Með því hefur stofnunin orðið vör við að ekki er komið með allt sem veiðist að landi. Fiskistofa hefur af því tilefni sent leiðbeiningabréf til þeirra sem sjást kasta fiski.  Skiptir þá engu hvort um er að ræða einn fisk eða fleiri.  
Eins og komið hefur fram samþykkti aðalfundur LS að óska eftir því við sjávarútvegsráðherra að heimila sleppingu á lífvænlegum þorski undir 50 cm sem veiddur er á króka á grunnslóð.  Í umræðum um tillöguna kom m.a. fram að hér væri um óverulegt magn að ræða en heimildin myndi leiða til virkara eftirlits þar sem stór hluti af vinnu Fiskistofu við þennan þátt eftirlitsins snýr að slíku „tittarusli eins það var orðað.    
LS mun hér eftir sem hingað til leggja áherslu á að umgengni um auðlindina sé ávallt til fyrirmyndar.  
Í frétt Fiskistofu er vakin athygli á að skylt er að hirða og landa öllum afla sem kemur í veiðarfæri.  Aflinn telst allur til aflamarks, nema sá sem er skemmdur eða selbitinn enda hafi honum verið haldið aðgreindum frá öðrum afla við löndun.
  
Undantekning frá höfuðskyldunni eru tegundir þar sem stofnstærð er undir ásættanlegum mörkum – lúða (sé hún lífvænleg), háfur, hámeri og beinhákarl.  Auk þeirra er heimilt að sleppa lífvænlegum hlýra og tindabikkju.  Lífvænlegum rauðmaga sem kemur í grásleppunet skal sleppt og þá er skylt að sleppa allri grásleppu sem kemur í net við aðrar veiðar en grásleppuveiðar. Þá nær brottkastsreglan ekki til fisktegunda sem ekki eru háðar takmörkunum á leyfilegum heildarafla, svo framanlega sem þær hafi ekki verðgildi, þ.e. ekki sé manneldismarkaður fyrir viðkomandi tegund.
Eftirtalin úrræði auðvelda sjómönnum að koma með allan afla að landi.  
VS-afli 
Heimilt að landa 5% af afla hvers ársfjórðungs án þess að skerða aflamark.  Ýsa og grásleppa eru ekki háð tímabilum.  VS- afla skal halda aðskildum frá öðrum afla og seldur á markaði.  80% andvirðisins fer í Verkefnasjóð sjávarútvegsins (VS).  
Undirmálsafli 
Heimilt að landa undirmali allt að 10% af þorsk, ýsu, ufsa og karfa úr hverri veiðiferð sem reiknast þá að hálfu til aflamarks. Undirmálsafla skal haldið aðskildum frá öðrum afla.
Tegundatilfærsla 
Heimilt er að nota aflamark í einni botnfisktegund vegna umframveiða á annarri og skerðist þá aflamarkið hlutfallslega. Ekki er leyfilegt að nýta þessa heimild við þorskveiðar.  Heimildin takmarkast við 5% af heildarverðmæti botnfisksaflamarks en umframafli í hverri botnfisktegund má ekki vera meiri en sem nemur 1,5% af heildarverðmæti botnfisksaflamarks. Tilfærsla úr einstakri botnfisktegund má ekki fara yfir 30% af aflamarki skips í viðkomandi tegund.
Aflamarksframsal 
Ef veitt er umfram aflamark í einhverri tegund er heimilt að nýta 
framsalsheimild til að auka við aflamark í viðkomandi tegund. Slíkt þarf að gerast innan þriggja daga frá því að veiðiferð lýkur.
211118 logo_LS á vef.jpg