Gefin hefur verið út reglugerð sem heimilar til áramóta notkun flottrolls við veiðar á loðnu úti fyrir Norðurlandi. Í reglugerð er ákvæði um að skipstjórum beri að tilkynna um væntanlegar veiðar til Fiskistofu einum virkum degi áður en þær hefjast. Jafnframt sé skipstjóra skylt að taka um borð eftirlitsmann samkvæmt nánari fyrirmælum Fiskistofu.
Í Austurfréttum var skýrt frá því þann 30. nóvember að framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar hafi fyrir um tíu dögum óskað eftir því við sjávarútvegsráðuneytið að leyfi yrði veitt fyrir veiðum með trolli. „Við erum nokkuð vissir um að við værum að veiða loðnu ef við fengjum að nota trollin. Menn telja sig sjá eitthvað af loðnu en hún er ekki komin nógu langt upp til að nótin nái niður á hana, sagði forstjórinn.
Landssamband smábátaeigenda hefur margsinnis ályktað um notkun flottrolls við loðnuveiðar, nú síðast á aðalfundi félagsins í október þar sem samþykkt var að skora á sjávarútvegsráðherra að heimila ekki veiðar með flottrolli á komandi loðnuvertíð.
Í greinargerð með samþykktinni segir m.a.
- Ekki hefur verið veitt með flottrolli, í tvö til þrjú ár og eru áhrif þess þegar komin fram. Bent skal á stærsta stofn loðnu í áratugi og grásleppu þar sem stofninn hefur tvöfaldast.
Í umsögn Hafrannsóknastofnunar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins kemur fram að stofnunin leggst ekki gegn tímabundnum veiðum með flotvörpu á afmörkuðu svæði. Svæðið tekur mið af því að þar hafi ekki fundist ungloðna í haustleiðangri 2021.
Í bréfinu er rifjað upp að svæðatakmörkun um flotvörpuveiðar hafi verið sett til að koma í veg fyrir veiðar á ungloðnu og meðafla sem og að koma í veg fyrir afföll loðnu vegna möskvasmuga. Af þeim sökum telur Hafrannsóknastofnun mikilvægt að fylgst verði vel með veiðunum m.t.t. magns ungloðnu og meðafla. Svæðinu skuli umsvifalaust lokað verði eftirlitsmenn varir við að hlutfall loðnu, smærri en 14 sm fari yfir 20% miðað við fjölda fiska.