Yfirlýsing frá Smábátafélaginu Hrollaugi Höfn

Smábátafélagið Hrollaugur fordæmir aðför sjávarútvegsráðherra að mannréttindum og búsetuskilyrðum strandveiðimanna allt í kringum landið með skerðingu aflaheimilda til handa strandveiðimönnum. Sjávarútvegsráðherra var kosinn á lýðræðislegan hátt til að vera þjónn þjóðarinnar á Alþingi og til að framfylgja stefnu Vinstri Grænna og loforðum um aukið aðgengi þjóðarinnar að nýtingu sinna eigin auðlinda til að mynda með því að festa 48 veiðidaga á hvern einasta strandveiðibát allt í kringum landið.
„Veiðar smábáta á strandveiðum eru njörvaðar niður með alls konar takmörkunum.  Það sem stjórnvöld ná þó ekki til er náttúran sjálf;  veður og fiskgengd á grunnslóð.  Að vitna í ofanálag til vísindalegrar ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar er til að æra óstöðugan.  Veiðar smábáta með handfærum þar sem aflinn sveiflast til og frá um 1% af leyfilegum heildarafla á enga samleið með vísindalegri nálgun
Smábátafélagið Hrollaugur á Höfn óskar eftir að Landssamband smábátaeigenda leiði mótmæli gegn þeim mannréttindabrotum sem verið er að beita okkur smábátasjómenn í kringum landið og þá um leið þjóðina alla. Við óskum eftir því að LS hafi samband við Mannréttindadómstólinn og fari fram á það við hann að þeir komi hér til lands og geri úttekt á dómnum sem talað er um og hvort honum hafi verið framfylgt af yfirvöldum. 
Eins og við vitum þá eru það bara sumir sem þurfa að fara eftir lögum og reglum um íslenskan sjávarútveg og aðrir ekki. Á meðan stórútgerðinni er leyft að brjóta lög um kvótaþakið og þeim greidd leiðin til þess af þjónum þjóðarinnar á Alþingi og embættismönnum.  Horft er í hina áttina þegar svindlað er á ísprósentum og einnig þó svo myndbönd sanni stórfellt brottkast á togurum.  
Við fólkið sem mannréttindin eru brotin á eigum ekki að þurfa að fara að neinum einustu lögum ef ekki allir þurfa að gera það.  Lög og reglur eru að missa gildi sitt í samfélaginu vegna þessa. Við þurfum að róa á bátum okkar sama hvað lög og reglur segja til um hvað við megum gera og hvað ekki. Verum tilbúin með kröfugerð og talsmenn þar sem við förum með rök okkar og málstað um að mannréttindi okkar séu brotin hér á Íslandi og hvernig sumir þurfa að fylgja hér lögum og reglum en aðrir ekki. Við þurfum að greina frá því hvernig búsetuskilyrði okkar og réttur til að lifa sé fótum troðinn og færður örfáum fjölskyldum í kringum landið af því sem kallast lýðræðislega kjörnum þjónum okkar til Alþingis. Förum með málið alla leið í Mannréttindadómstólinn sem mun blöskra spillingin sem þar mun flæða fram í málflutningi okkar í Brussel og heiminum verður öllum gert ljóst hvers konar bananalýðveldi Ísland er orðið. 
Eins og segir í fyrstu grein fiskveiðistjórnunarlaga:
 
„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. 
Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu 
þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu
Höfn, 20. janúar 2022
Fyrir hönd stjórnar Smábátafélagsins Hrollaugs á Höfn 
Birnir Vilhelm Ásbjörnsson stjórnarmaður
220120 Strandveiðisjómenn í Hrollaugi.jpg