Í Morgunblaðinu sl. laugardag 29. janúar birtist grein eftir Magnús Jónsson veðurfræðing og formann Drangeyjar – smábátafélags Skagafjarðar.
Í greininni vekur Magnús athygli á grein er birtist í vísindatímaritinu NATURE í mars sl. um samspil togveiða og losunar á koltvísýringi úr hafsbotninum.
Hér eru nokkrar tilvitnanir úr grein Magnúsar.
Losun á við flugið
Hafa verður í huga að hafsbotninn er stærsta kolefnisforðabúr heimsins. Með því að róta upp efsta lagi hans er verið að leysa úr læðingi mörg þúsund ára gamalt kolefni og auka þannig koltvísýring í hafinu.
Áætlað er að við veiðar á hverju tonni fiskjar sem veitt er með trolli losni að jafnaði rúmlega 50 tonn af CO2. Er það um þrisvar sinnum meira en er að meðaltali í veiðum með öðrum veiðarfærum skv. alþjóðlegum útreikningum.
Í alþjóðlegum rannsóknum á veiðum með trolli og botndregnum veiðarfærum er talið að árlegt brottkast sé ekki minna en 5 milljónir tonna á heimsvísu. Þannig stuðla veiðar með þessum veiðarfærum að veiðum á miklum meðafla og mun meiri sóun á verðmætum en aðrar veiðiaðferðir.
Ljóst er að veiðar með botndregnum veiðarfærum eiga í vaxandi mæli undir högg að sækja víða í heiminum. Það er því umhugsunarefni fyrir okkur á Íslandi að þáttur togveiða hér við land hefur farið sívaxandi á síðustu áratugum.