Krafa um stýrimann á alla smábáta

Innviðaráðherra hefur lagt fram frumvarp um áhafnir skipa.  Frumvarpinu er ætlað að sameina nokkur lög og gera starfsumhverfi einfaldara og um leið skilvirkara.
Frumvarpið er endurflutt frá fyrra þingi þar sem það fékkst ekki afgreitt til 2. umræðu. Nú er það á sama stað í Umhverfis- og samgöngunefnd sem vinnur úr umsögnum sem borist hafa.   Hvort rétt sé að nefndin verði við ábendingum sem þar koma fram eða ekki. 
Á öllum stigum hefur LS mótmælt nokkrum atriðum sem ætlað er að festa í lög með samþykkt frumvarpsins.  Þar ber hæst að í áhöfn smábáta, þar sem róður stendur lengur en 14 klst, verði skylt að skrá stýrimann.  LS fer fram á að ákvæðið muni ekki eiga við dagróðrabáta.  Krafan sé algjörlega úr takti við umfang og útgerð þessara báta.
Í upphaflegum drögum frumvarpsins var gengið svo langt að banna einmenningssjósókn þegar veiðiferð stæði lengur en 14 klst.  Því var mótmælt kröftuglega með þeim árangri að engar tímatakmarkanir eru nú í frumvarpinu þegar eigandinn sjálfur rær bátnum. 
„Þegar eigandi skips samkvæmt skipaskrá er lögskráður sem skipstjóri og er einn um borð þarf ekki stýrimann þótt útivist fari yfir 14 klst.
  
Sams konar ákvæði er um báta með vélarafl á bilinu 250 kW – 750 kW smáskipavélavörð.
Jafnframt var í frumvarpsdrögunum gert ráð fyrir að ekki yrði lengur hægt að gera samning við vélsmiðju um eftirlit með vélbúnaði sem kæmi í stað þess að vélavörður yrði skráður í áhöfn.  LS mótmælti þeirri ákvörðun og leiddu viðræður við Samgöngustofu til þess að samningar verða áfram heimilaðir, enda hafa þeir í alla stað reynst afar vel.
„Að uppfylltum skilyrðum samkvæmt reglugerð er ekki skylt að smáskipavélavörður sé í áhöfn skips sem er 15 metrar eða styttra að skráningarlengd ef gerður hefur verið samningur við þjónustuaðila um viðhald vélabúnaðar skipsins og sá samningur er staðfestur af Samgöngustofu. Ábyrgð á að viðhaldi samkvæmt slíkum samningi sé sinnt hvílir á útgerð.
  
LS skilaði umsögn um frumvarpið og hefur nú jafnframt sent til samgöngunefndar minnisblað um þau atriði sem félagið leggur mesta áherslu á að verði breytt.
220227 logo_LS á vef.jpg