Fyrr í dag átti LS fund í matvælaráðuneytinu með sjávarútvegsskrifstofu ráðuneytisins. Til umræðu var nýtt afladagbókarapp sem áætlað er að taka í notkun 1. apríl næstkomandi.
Á fundinum mótmælti LS þeirri fyrirætlun Fiskistofu að kostnaður vegna lögboðinna skila á upplýsingum til Hafrannsóknastofnunar og Fiskistofu sem hingað til hefur verið greiddur af hinu opinbera sé velt yfir á smábátaeigendur.
Máli sínu til stuðnings vitnaði LS til álitsgerðar sem félagið lét vinna, en samkvæmt henni skortir Fiskistofu lagaheimild til þess að færa innheimtu eftirlitsgjalda yfir til einkaaðila.
Opinberar stofnanir geta ekki ákveðið einhliða að útvista gjaldtöku og eftirliti til einkaaðila, heldur þarf til þess skýra heimild frá löggjafanum.
Jafnframt benti LS á að markmið laga um veiðigjald væri að standa straum af
kostnaði við eftirlit og stjórnsýslu fiskveiða- og vinnslu, er veiðigjaldinu þannig ætlað að standa straum af kostnaði m.a. kostnaði við hugbúnaðarþróun sem eykur skilvirkni stjórnsýslunnar.