Útflutningsverðmæti grásleppuafurða á síðasta ári nam rúmum 1,9 milljörðum. Samdráttur milli ára um 538 milljónir. Leita þarf aftur til ársins 2017 til að finna lægra útflutningsverðmæti. Hæst var það 2019 um 2,8 milljarðar.
Útflutningsverðmæti er samsett af þremur flokkum. Kavíarinn er þar verðmætastur, hrognin koma þar á eftir og lægst er verðið á frosinni grásleppu.
Gríðarlegar sveiflur hafa verið í verðum einstakra flokka sem helgast að langmestu leiti af framboði hverju sinni hjá þeim þjóðum sem veiða grásleppu, Ísland og Grænland um 90% heildarveiðinnar.
Benda má á að árin 2016, 2017 og 2018 varð heildarveiði innan þeirra marka sem eftirspurn var á. Það varð þó ekki til þess að skortur myndaðist, en birgðir sem safnast höfðu upp nánast þurkuðust úr. Í kjölfarið myndaðist mikil eftirspurn eftir hrognum árið 2019. Verð hækkaði um tugi prósenta úr rúmum 150 þús. fyrir tunnu af söltuðum hrognum í 207 þúsund. Verðhækkun varð í kjölfarið á kavíarnum en ekki nægjanleg til að verð héldist óbreytt til sjómanna. Að viðbættu Covid-19 voru áhrifin þau að minna seldist og fyrirsjáanlegt var að draga þyrfti úr veiði á árinu 2021 til að koma í veg fyrir mikla verðlækkun.
Það varð ekki raunin veiði jókst hér á landi um 43% milli ára, verð hríðféll og þegar upp var staðið var aflaverðmæti 22% lægra en á vertíðinni 2020, fór úr 1.041 milljónum 969 milljónir á vertíðinni 2021. Verð til sjómanna rétt um helmingur af því sem fékkst árið 2019.
Á heimsvísu jókst framboð grásleppuhrogna um 13%.
Útlitið fyrir komandi vertíð er því ekki björgulegt. Kaupendum hefur fækkað og ólíklegt að verð hækki. Þá er alls óvíst hver ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar verður um leyfilegan heildarafla. Miðað við tölur úr haustralli má vænta að hann verði töluvert lægri en heimilt var að veiða á síðustu vertíð. Ráðgjöfin mun liggja fyrir 1. apríl og í kjölfar þess mun ráðherra ákveða hversu marga daga má stunda veiðarnar.
Á vertíðinni 2021 var leyfilegur fjöldi daga 35 og heimilt að veiða 9.040 tonn af grásleppu sem byggðist á að lífmassavísitölur grásleppu höfðu hækkað um 94% milli ára. Heildarveiðin endaði hins vegar í 7.454 tonnum.
Myndin sýnir 10 ára tímabil ráðgjafar Hafró bláa línan, stöplar sýna veiðina.