Atvinnuveganefnd hefur nú til umfjöllunar frumvarp þar sem fjallað er um veiðistjórn sandkola og hryggleysingja. Frumvarpið er stjórnarfrumvarp lagt fram af Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra.
LS veitti umsögn um frumvarpið og hefur fundað með atvinnuveganefnd.
Í umsögn LS er m.a. vakin athygli á að veiðum á sandkola hefur á aðalveiðisvæði hans verið stjórnað með aflamarki frá 1. september 1997. Segja má að stofninn hafi hrunið á undanförnum árum þrátt fyrir að heildarafli hafi ekki farið umfram ráðgjöf. Fiskveiðiárið 2003/2004 var heimilt að veiða 7.000 tonn en nú er leyfilegur afli 319 tonn.
Í umsögninni benti LS á að nánast allur sandkoli veiddist í dragnót og því óþarft að aflamark næði til annarra veiðarfæra. Í þau væri sandkoli sem meðafli og ætti að vera það áfram. Rétt að benda hér á öll vandræðin sem leiddu af kvótasetningu á blálöngu, keilu og löngu.
Úr tækniskýrslu Hafró. Sandkoli. Landaður afli eftir veiðarfærum frá 1994,
samkvæmt aflaskráningarkerfi Fiskistofu. Botnvarpa, dragnót.
Hryggleysingjar – sæbjúgu, ígulker o.fl.
LS leggur til að veiðistjórn á hryggleysingjum verði svæðisbundin, enda flest kvikindin með litla hreyfigetu. Veiðileyfi verði gefin út til ákveðinna svæða, þannig ætti hver og ein útgerð hægara með að stjórna veiðunum með sjálfbærni að leiðarljósi.
Í umsögn LS var sérstaklega vakin athygli á samþykkt aðalfundar 2021 um sæbjúgu.
„Aðalfundur LS lýsir yfir þungum áhyggjum af þróun sæbjúgnaveiða og vill að áhrif þeirra á botndýr, botn og búsvæði fiska verði rannsökuð hið fyrsta. Telur fundurinn að áhrif veiðanna séu geysileg þar sem sífellt stærri og öflugri skip eru notuð til veiðanna, t.d. er lágmarksþyngd sæbjúgnaplógs eitt tonn.