Frá því ljóst var að Fiskistofa ætlaði ekki að bjóða upp á ígildi afladagbókar í formi snjallforrits (app) í síma hefur LS verið á vaktinni um hvað muni taka við. Snemma var ljóst að Trackwell sem þjónað hefur skipum landsins með afladagbók hafði áhuga á að fylla pláss Fiskistofu.
LS átti nokkra fundi um málefnið við Fiskistofu og lagði áherslu á að þó stofan ætlaði sér ekki að reka appið áfram þá losaði það hana ekki við kostnað við að taka á móti upplýsingum sem útgerðum var lögum samkvæmt gert að senda til hennar. Bent var á að rafrænar upplýsingar yrðu til að spara launakostnað hjá stofunni og gera eftirlit ódýrara. Þá benti LS á að veiðigjöld sem útgerðir greiddu væru til þess ætluð að standa straum að rekstri Fiskistofu og Hafrannsóknastofnun.
Á fundunum lagði LS fram lögfræðilega álitsgerð máli sínu til stuðnings.
Þegar ljóst var að mál rötuðu ekki eftir þeim farvegi sem hér er lýst sendi LS erindi til Matvælaráðuneytisins í byrjun mars og í kjölfarið var fundað þann sjöunda til að reyna að finna lausn.
Á fundinum mótmælti LS því að kostnaði vegna lögboðinna skila á upplýsingum til Fiskistofu og Hafrannsóknastofnunar, sem hingað til hefur verið greiddur af hinu opinbera, sé velt yfir á smábátaeigendur.
Jafnframt vitnaði LS til álitsgerðarinnar sem segði Fiskistofu skorta lagaheimild til þess að færa innheimtu eftirlitsgjalda yfir til einkaaðila. „Opinberar stofnanir geta ekki ákveðið einhliða að útvista gjaldtöku og eftirliti til einkaaðila, heldur þarf til þess skýra heimild frá löggjafanum, eins og segir í álitsgerðinni.
Matvælaráðuneytið svarar LS
LS hefur nú borist svar frá ráðuneytinu. Þar segir m.a. að Fiskistofa muni frá og með
1. apríl nk. taka í notkun vefþjónustu sem ætlunin er að taki á móti aflaupplýsingum í gegnum snjalltækjaforrit. „Þeir skipstjórnarmenn sem það kjósa geta samið um notkun á slíku forriti, en gert er ráð fyrir að tveir aðilar geti þjónustað skipstjórnarmenn frá og með 1. apríl nk. um notkun á slíku forriti, eins og segir í bréfi ráðuneytisins.
Fiskistofa verði áfram beinn þátttakandi
Í bréfinu kemur jafnframt fram að ráðherra hafi samt sem áður ákveðið að stefna að því að farin verði sú leið að viðhafa fleiri en eina aðferð við skil á aflaupplýsingum til Fiskistofu. „Stefnt er að því að breyta reglugerð nr. 298/2020 um skráningu og rafræn skil aflaupplýsinga, þannig að hægt verður að skila aflaupplýsingum til Fiskistofu á formi sem hægt verður að nálgast á vefsíðu stofnunarinnar. Varðandi skil á aflaupplýsingum með þessum hætti þá er nauðsynlegt að upplýsingarnar séu fullnægjandi sbr. kröfur reglugerðarinnar einkum í 3. gr. Þá verður gert ráð fyrir að Fiskistofu verði heimilt að innheimta þjónustugjald fyrir vinnu við aflaupplýsingar.
Ekki skylt að semja við einkaaðila
Í niðurlagi bréfs Matvælaráðuneytisins til LS segir: „Það er því ekki skylda fyrir skipstjórnarmenn að semja við einkaaðila um notkun eða þróun á hugbúnaði til að skila aflaupplýsingum til Fiskistofu í gegnum vefþjónustu, þótt það sé heimilt kjósi aðilar að gera það. Hægt er að skila aflaupplýsingum á þar til gerðu formi Fiskistofu.