Langreyðareldi í Hvalfirði?

Það hefur ekki farið hátt að Kristján Loftsson, eigandi Hvals hf hefur á undanförnum fimm árum keypt upp alla strandlengjuna í Hvalfirði, frá munni Hvalfjarðarganga að norðanverðu að landamerkjum Reykjavíkur að sunnanverðu. Eina undantekningin er ströndin fyrir framan stóriðjuver Járnblendisins og Norðuráls við Grundartanga. 
Áform Hvals hf eru vægast sagt óvenjuleg. 
Ætlunin er að strengja öfluga neðansjávargirðingu þvert yfir fjörðinn ofan á Hvalfjarðargöngunum og flytja mjólkandi langreyðarkýr ásamt kálfum inn fyrir girðinguna og hefja eldi á þessari hvalategund í firðinum. 
Það yrði ekki í fyrsta skipti sem slíku mannvirki yrði komið fyrir í mynni Hvalfjarðar. Eftir hernám Breta árið 1940 var strengd slík girðing fyrir Hvalfjörð og að Hvítanesi má enn sjá leifar af henni.
Þetta verður í fyrsta skipti sem eldi á hvalategund er reynt í heiminum.
Vitað er að Hvalur hf hefur nú þegar lagt í mikinn kostnað til að geta hafið veiðar á rauðátu, sem er aðalfæða langreyðarinnar. Tæknin er fyrir hendi og henni hefur verið beitt við Suðurskautslandið með góðum árangri. Ætlunin er að dæla rauðátunni lifandi úr stórum tankskipum inn í fjörðinn.
Eftir því sem næst verður komist kviknaði þessi hugmynd í kjölfar þess að þrjár langreyðarkýr með kálfa læstust árið 2011 inn í Jens Munk flóanum við Baffinsland sem tilheyrir Kanada. Kýrnar, ásamt kálfunum lifðu góðu lífi í á þriðja ár, en þá opnaðist flóinn á ný. Jens Munk flóanum svipar um margt til Hvalfjarðar, djúpur og straumharður en er jafnframt þekktur fyrir að mikið magn af rauðátu rekur inn í hann, nánast allt árið. 
Vandasamasti hluti þessa verkefnis er hvernig fanga á hvalina og flytja þá inn fyrir girðinguna. Hvalur hf hefur staðið fyrir rannsóknum á deyfilyfjum sem skotið verður í þá, þannig að þeir bíði ekki tjón af. 
IMG_3865.png
Hvalur 9, skip Hvals hf er í slipp í Reykjavík, eins og allir sjá sem keyra Tryggvagötuna þessa dagana. Þeir eru hins vegar færri sem veita því eftirtekt að verið er að gera meiriháttar breytingar á skipinu. Þá liggur gríðarstór netpoki úr hnútalausu ofurgarni norðan við skipið sem slá skal utan um hvalina. 
Kristján hefur fleira í hyggju í þessu sambandi. Fyrir það fyrsta gæti þetta reynst ferðaiðnaðinum lyftistöng, þar sem ferðamenn gætu treyst því að hvalaskoðunarferð í firðinum stæði undir væntingum. 
Landssamband smábátaeigenda hefur sent Matvælaráðherra athugasemdir vegna þessara fyrirætlana Hvals hf. Í þeim athugasemdum er lýst efasemdum um að þessar áætlanir standist, ásamt því að benda á að innan grynninganna yfir Hvalfjarðargöngunum eru ágætis linu- og handfærasvæði.