Mikið hefur verið rætt um þá þróun sem orðið hefur á strandveiðikerfinu sl. þrjú ár. Veiðikerfinu var breytt í apríl 2018 úr því að vera bundið við ákveðið magn sem skipt var á hvert hinna fjögurra veiðisvæða. Helstu rök fyrir breytingunni voru tengdar því að sókn gæti orðið úr hófi þegar fáir dagar væru í boði innan hvers mánaðar. Skammturinn yrði kláraður á örfáum dögum og því mikil pressa að ná róðri áður en lokað yrði.
Í umræðum um breytingar var það niðurstaða löggjafans að halda svæðisskiptingunni óbreyttri en skipta ekki heildarmagni á hvert svæði. Eftir töluverðar umræður og vangaveltur varð niðurstaðan sú að heimila 12 veiðiferðir í hverjum mánuði. Jafnframt yrði sókn aðeins heimiluð 4 daga í viku að undanskildum rauðum dögum.
Þó smábátaeigendur hefðu viljað hafa dagana fleiri og tímamörk rýmri varð þetta niðurstaðan. Að sjálfsögu gerðu þeir sem um málið fjölluðu sér grein fyrir því að breytingin gæti rýrt hlut manna á svæði C (Þingeyjarsveit – Djúpivogur) þar sem dæmi voru um að menn næðu fleiri dögum en tólf í ágúst þegar besta fiskiríið væri. Þeir sættu sig hins vegar við niðurstöðuna þar sem tryggt var að dagarnir yrðu ekki færri en 12 í ágúst.
Árin 2018 og 2019 festu í raun hið nýja kerfi í sessi þar sem veiðarnar stóðu óskertar allt tímabilið maí – ágúst. Aflaviðmiðun dugði og vel það og því ákveðið að fella niður bann við sókn á rauðum dögum árið 2020. Það var þó skammgóður vermir þar sem fleiri bátar höfðu bæst í kerfið og afli aukist að sama skapi. Þrátt fyrir að bætt væri við heimildum eða í raun sett inn það sem áður hafði verið ákveðið var lauk strandveiðum það ár 19. ágúst.
Á árinu 2021 var ákveðið að setja aftur inn bann við sókn á rauðum dögum til að tryggja betur sókn í þá 12 daga sem ákveðið hafði verið að byggja á. Þrátt fyrir 1.170 tonna viðbótarheimildir var það eins og árinu áður, það dugði ekki til og veiðar voru stöðvaðar einum degi fyrr, þann 18. ágúst.
Það þarf því ekki að koma á óvart að formenn þriggja svæðisfélaga, Kletts, Fonts og Félags smábátaeigenda á Austurlandi hafi ákveðið að rita Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra bréf þar sem óskað er eftir að 48 dagar verði tryggðir, 12 dagar í hverju mánuði. Erindi þeirra er stutt af öllum svæðisfélögum LS og fullri sátt lýst yfir með 48 daga kerfi. Í bréfinu er þó eftirfarandi tekið fram:
Veiðikerfi takmarkað með 11 100 tonnum, á ekkert skylt við það 48 daga kerfi sem lagt var upp með þegar Alþingi í apríl 2018 samþykkti breytingar á kerfinu, m.a. til að auka öryggi innan þess.