Heildarafli strandveiðibáta er kominn í 8.464 tonn þar af er þorskur 7.415 tonn. Þó tímabilið sé aðeins hálfnað í mánuðum talið er ljóst að flest meðaltöl eru hærri en áður hefur sést. Alls hafa 684 bátar landað afla á móti 634 á sama tíma í fyrra. Útgefin leyfi til strandveiða eru komin yfir sjöhundruð – 703 talsins.
Á þeim tveimur mánuðum sem liðnir eru af strandveiðitímabilinu hafa 95 bátar náð að nýta 24 daga. Þessu var ekki til að dreifa á síðasta sumri þegar 27 bátar náðu sömu nýtingu. Segir það allt til um hversu veðrið spilar stóran þátt í sókn þessara báta. Þegar litið er til síðustu tveggja vikna var þorskafli á hvern dag 157 tonn að meðaltali [20. – 23.] en fór í 269 tonn í síðustu viku.
Augljóst er að bæta verður við viðmiðunarafla svo kerfið haldi, þ.e. 12 dagar í júlí og 12 í ágúst. Hversu miklu verður bætt við er enn óvíst, en fyrir liggur að 874 tonn af þorski fengust í skiptum fyrir 6.952 tonn af makríl á tilboðsmarkaði Fiskistofu.