Andlát – Guðmundur Halldórsson Bolungarvík

Látinn er Guðmundur Halldórsson Bolungarvík.
Guðmundur var fæddur á Ísafirði 21. janúar 1933.  Hann flutti snemma til Bolungarvíkur.  Hann var sjómaður og skipstjóri allan sinn starfsaldur.  Byrjaði sem hálfdrættingur á Sólrúnu frá Bolungarvík 11 ára gamall og lauk starfsævinni á krókaaflamarksbátnum Tóta ÍS 12 árið 2001. 
 
IMG_4096.png
Guðmundur var heiðursfélagi í Landssambandi smábátaeigenda og Eldingu félagi smábátaeigenda í Ísafjarðarsýslum þar sem hann var formaður 2000-2004.  Guðmundur Halldórsson var kosinn Vestfirðingur ársins 2002.
Guðmundur var sannkallaður baráttujaxl í öllu sem hann tók sér fyrir hendur.  Smábátaeigendur nutu þessa krafts svo um munar.  
Í viðtali við Ágúst Inga Jónsson blaðamann Morgunblaðsins þann 6. janúar 2012 segir Guðmundur svo frá:
„„Við reyndum allt til að vekja athygli á málstað okkar, því tilveruréttur byggðarlaganna var í hættu. Þetta var upp á líf eða dauða, segir Guðmundur. „Eitt árið stóðum við sjóklæddir á Austurvelli með brennandi neyðarblys, í annað skipti stóð ég fyrir fjölmennum fundi á Ísafirði og loks sá ég að ég þyrfti að vinna þetta mál á vettvangi Sjálfstæðisflokksins. Þar var tillaga um línuívilnun naumlega felld í sjávarútvegsnefnd eins landsfundarins, en ég gafst ekki upp og bar tillöguna um línuívilnun upp á sjálfum landsfundinum. Þar hafði ég sigur og ég var stoltur af flokknum. Hjólin fóru að snúast, þrátt fyrir öfluga andstöðu LÍÚ og fleiri.
Þegar Guðmundur tók eftir að stjórnvöld drógu lappirnar á að koma línuívilnun strax í framkvæmd gekkst hann fyrir stórfundi í Íþróttahúsinu á Ísafirði 14. september 2003, undir yfirskriftinni „Orð skulu standa.   Línuívilnun kom til framkvæmda 1. febrúar 2004.
Landssamband smábátaeigenda þakkar Guðmundi fyrir störf hans í þágu smábátaeigenda og vottar aðstandendum samúðar.
Útför Guðmundar fer fram frá Ísafjarðarkirkju nk. laugardag 9. júlí og hefst kl 11:00