Smábátafélag Reykjavíkur vill að eigandinn rói á strandveiðum

Aðalfundur Smábátafélags Reykjavíkur var haldinn í sal félagsins – verbúð 5c við Geirsgötu – 26. ágúst sl.
Mæting á fundinn var með minnsta móti.  Það kom þó ekki í veg fyrir líflegar umræður um hin ýmsu málefni, sem fjölluðu um hafnaraðstöðu félagsmanna og veiðikerfi smábátaeigenda.
Fundurinn samþykkti að eftirfarandi tillögur yrðu framlag félagsins til 38. aðalfundar LS.
    • Allur fiskur sem veiðist á strandveiðum skal seljast á viðurkenndum fiskmarkaði.
    • Allir strandveiðibátar skulu vera í 100% eigu þess sem rær bátnum.
    • Grásleppuveiðar skulu svæðaskiptar og veiðiheimildum skipt jafnt á svæðin í hlutfalli við fjölda báta sem stunda veiðarnar. Þetta er til að gæta jafnréttis og sanngirni milli allra byggðarlaga. 
    • Smábátafélag Reykjavíkur styður áform ráðherra um orkuskipti við strandveiðar að ívilna þeim bátum sem ganga fyrir rafmagni með drifrafhlöðum í stað jarðefnaeldsneytis. Þá er það skoðun félagsins að ívilnanir eigi einnig að taka til vetnis sem og annarra grænna orkugjafa.  
    • Smábátafélag Reykjavíkur mótmælir harðlega öllum hugmyndum um aukna sókn togskipa innan 12 sjómílna fiskveiðilandhelginnar.  Telji Hafrannsóknastofnun að auka þurfi veiðar á grunnslóð er það tillaga SR að það verði gert með veiðum dagróðrabáta sem nota umhverfisvæn veiðarfæri.  SR bendir á að næg sóknargeta er fyrir hendi hjá bátum sem nota kyrrstæð veiðarfæri.  Notkun trolls og dragnótar við veiðar nálægt landi skilur eftir sig eyðimörk og fiskleysi á miðum smábáta sem ekki hafa stærðar sinnar vegna möguleika á að sækja á aðrar veiðislóðir.
    • Stækkun krókaaflamarksbáta árið 2013 úr 15 brt í 30 brt leiddi til stórfelldrar fækkunar smábáta með aflahlutdeild og þar með minnkandi vægi einyrkja í útgerð.  SR lýsir áhyggjum sínum að með frumvarpi ráðherra um orkuskipti, þar sem heimilað verði að stækka krókaaflamarksbáta, verði áfram róið í sömu átt.  Það er því óhjákvæmilegt að inn í fiskveiðilögin verði sett ákvæði sem efli línuívilnun, komið verði á ívilnun við handfæraveiðar og útgerð strandveiðibáta tryggð með 48 veiðidögum.   Með slíku ákvæði yrði betur tryggð nýliðun í umhverfisvænni útgerð.   
Stjórn Smábátafélags Reykjavíkur:
Finnur Sveinbjörnsson formaður
Ottó Hörður Guðmundsson gjaldkeri
Tryggvi Skjaldarson ritari
Þorvaldur Gunnlaugsson meðstjórnandi
 
Félag smábátaeigenda í Reykjavík copy 6.jpg