Aðalfundur Snæfells – grásleppan í fermetra

Aðalfundur Snæfells var haldinn í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði þann 15. september.
Mjög góð mæting var á fundinn og hugur í fundarmönnum fyrir komandi baráttu fyrir auknum veiðirétti.
Við umræðu um grásleppuna komu fram sjónarmið að rétt væri að veiða það sem fiskifræðingar legðu til hverju sinni, en ekki að miða veiðar við markaðsaðstæður eins og tilhneiging hefði verið með 25 daga ákvörðun.  Þá þyrfti að samræma reglur um net og var tillaga Páls Aðalsteinssonar í Stykkishólmi um það málefni samþykkt. 
logo snæfell copy 6.jpg
Fjölmörg sjónarmið komu fram hvernig væri hægt gera strandveiðikerfið enn betra.  Umframafli væri of mikill.  Hvað væri til ráða?  Hækkun sekta myndi líklega virka.  Er það lögbrot að færa fisk á milli báta?  Hvað ætti að gera við afla sem fékkst með því að brjóta lög?  
Lagaákvæði um að koma með allt sem veiðist að landi, þar væri allt of langt gengið.  Ekki einu sinni leyfilegt að vísa „hlandufsa frá borði.   Að sleppa lúðu, hlýra og fleiru væri heimilt því nauðsynlegt að koma til móts við hefðir um að gefa lífvænlegum smáfiski möguleika á að stækka.  
Stjórn Snæfells er skipuð eftirtöldum:
Runólfur Jóhann Kristjánsson formaður, Grundarfirði
Bergvin Sævar Guðmundsson, gjaldkeri, Grundarfirði
Guðlaugur Gunnarsson ritari, Ólafsvík
Lúðvík Smárason meðstjórnandi, Hellissandi
Jóhannes Stefánsson meðstjórnandi, Hellissandi.
Varamenn í stjórn 
Rafn Guðlaugsson Ólafsvík
Fannar Baldursson Ólafsvík
Tillögur Snæfells til 38. aðalfundar LS
Strandveiðar

    • Aðalfundur Snæfells krefst þess að hver bátur fái heimild til að veiða 48 daga á strandveiðum ár hvert. Hverjum bát verði heimilt að róa að hámarki 12 daga í mánuði frá 1. maí til 31. ágúst. Hámarksafli á dag verði óbreyttur. 
    • Koma þarf í veg fyrir að sami útgerðaraðili/eigandi geti verið með fleiri en einn bát í einu á strandveiðum.
    • Hækka ætti sekt við umframafla í fimmfalt meðalverð á markaði á hvert kíló umfram 800kg af þorski.
    • Aðalfundur Snæfells skorar á stjórnvöld að fella niður sérstakt gjald (svokallaðan bryggjuskatt) á virkjun veiðileyfa við strandveiðar. 
Grásleppumál

    • Aðalfundur Snæfells samþykkir að eftirfarandi breytingar verði gerðar á skipulagi grásleppuveiða: Bátar eigi kost á að taka upp net í brælutíð án þess að dagafjöldi þeirra til veiða verði skertur og heimilt verði að hafa tvö grásleppuleyfi á bát.
    • Aðalfundur Snæfells mótmælir harðlega þeirri aðferðafræði sem hefur verið viðhöfð við útreikninga á meðafla í grásleppunet. Það er að segja uppreikning á fugli og sel úr veiðieftirlitsferðum Fiskistofu.
    • Leyfilegur netafjöldi taki mið af fjölda möskva.  Hætt verði að miða við teinalengd og tekin upp fermetrafjöldaviðmið.  Afar breytilegt er eftir landshlutum hvað notuð eru djúp net.  Í Breiðafirði eru net lögð á mjög grunnu vatni, frá 2 – 10 föðmum en fyrir norðan og austan mun dýpra.
 
Línuívilnun

    • Aðalfundur Snæfells skorar á sjávarútvegsráðherra að breyta ákvæði laga um línuívilnun þannig að hún gildi fyrir alla dagróðrabáta minni en 30 brúttótonn og styttri en 15 metrar. Verði 30% við landbeitningu, 20% við uppstokkun og 10% fyrir vélabáta.
Makríll 
    •  Aðalfundur Snæfells krefst frjálsra færaveiða smábáta á makríl.
Byggðakvóti

    • Aðalfundur Snæfells leggur til að byggðakvóta verði úthlutað sem ívilnun við löndun gildir fyrir línu og handfærabáta undir 30 brt og meira sett í strandveiðar með þessu nýtast heimildirnar hinum dreifðu byggðum á gegnsæjan hátt. 
Önnur mál

    • Aðalfundur Snæfells krefst þess að ekki verði opnað fyrir dragnóta og netaveiðar fyrir inna línu sem dregin er úr Selskeri í Selsker á Breiðafirði.
    • Aðalfundur Snæfells mótmælir harðlega öllum hugmyndum um lokun svæða fyrir handfæraveiðum eins og fram koma í skýrslu starfshóps um „faglega endurskoðun varðandi notkun veiðarfæra, veiðisvæða og verndunarsvæða á Íslandsmiðum. Aðalfundur Snæfells telur að ekki skuli beita reglugerðarlokunum eða skyndilokunum á handfæraveiðar heldur beita sektum eða veiðileyfis sviptingu á þá aðila sem fara ekki að settum reglum.
    • Aðalfundur Snæfells skorar á stjórnvöld að auka rannsóknir á lífríki Breiðafjarðar, sérstaklega ef auka eigi nýtingu þara úr firðinum, og hvaða áhrif hún hafi á lífríki Breiðafjarðar og viðgang fiskseiða.
    • Aðalfundur Snæfells skorar á stjórnvöld að hætta við lokun útibús Hafrannsóknarstofnunar í Ólafsvík.
    • Aðalfundur Snæfells lýsir yfir stuðningi við aflamarkskerfið.
    • Snæfell lýsir stórum áhyggjum vegna þess að búið er að heimila þorskanetaveiða með 10 tommu möskva og farið er að nota mun dýpri net en áður var. 
    • Snæfell óskar eftir að heimilt verði að koma með lúðu að landi sem veidd er á línu og handfæraveiðum.