Sigfús Bergmann Önundarson kosinn formaður Eldingar

Aðalfundur Eldingar var haldinn á Hótel Ísafirði 19. september.
Fundurinn var afar vel sóttur og mörg ný andlit.  Aðilar sem nýbyrjaðir eru í útgerð og aðrir sem ekki hafa tekið þátt í starfinu áður.  Fundinum stjórnaði af mikilli röggsemi einn þeirra, Rúnar Karvel Guðmundsson frá Suðureyri.
20220608_125930 (2).png
Í upphafi fundar minntist, Kristján Andri Guðjónsson formaður Eldingar, Guðmundar Halldórssonar heiðursfélaga í Eldingu, sem féll frá síðastliðið sumar.   Fundarmenn risu úr sætum og vottuðu virðingu sína.
Formaður gaf orðið til Arnar Pálssonar framkvæmdastjóra LS.  Í ræðu sinni kom hann víða við:
  • Ótímabær stöðvun strandveiða
  • 5,3% potturinn hvernig veiðiheimildir hafa nýst og hvað má gera þar betur
  • Fækkun krókaflamarksbáta
  • Línuívilnun, nauðsynlegt að sækja fram, að allir dagróðrabátar á línu minni en 30 brt. fái ívilnun
  • Fyrirætlun matvælaráðherra að leggja fram frumvörp um breytta veiðistýringu á grásleppu og svæðaskiptingu strandveiða.
  • Mikilvægi þess að aflaregla verði gerð sveigjanleg.
  • Þrýsting útgerða stærri togskipa að koma þeim inn fyrir 12 mílna landhelgi, að fá aflvísi burt úr lögum.
  • Veiðigjald – nú væri hvorki greitt fyrir loðnu né grálúðu.
Að loknu ávarpi spruttu fram fjölmargar spurningar frá fundarmönnum.  Fjörugar umræður um hin einstöku málefni sem voru all snarpar á köflum.   
Undir dagskrárliðnum „Kosning stjórnar lýsti Kristján Andri því yfir að hann gæfi ekki kost á sér lengur.   Þá kvaddi Þórður Sigurvinsson fulltrúi Eldingar í stjórn LS sér hljóðs þar sem hann sagði tíma til kominn fyrir nýjan mann til að taka við af sér.   
Fundarstjóri óskaði eftir framboði í stöðurnar og gaf Sigfús Bergmann Önundarson frá Suðureyri kost á sér.  Hann var kosinn formaður Eldingar og fulltrúi félagsins í stjórn LS með öllum greiddum atkvæðum.
Stjórn Eldingar:

Sigfús Bergmann Önundarson formaður, Suðureyri
Bæring Gunnarsson, Bolungarvík
Karl Guðmundur Karlsson, Súðavík
Páll Björnsson, Þingeyri
Rúnar Karvel Guðmundsson, Suðureyri
Þórður Sigurvinsson, Suðureyri
Fundinum lauk með samþykkt eftirfarandi ályktana til 38. aðalfundar LS
Aflamark innan 5,3% pottsins verði úthlutað með sambærilegum hætti og gert er við viðbótarheimildir í makríl og gert var með skötusel. Settar verði reglur sem verði með hámarki á hvern aðila. 
Elding krefst þess að sömu reglur gildi um karfa og ufsa við strandveiðar. 
Elding krefst þess að við strandveiðar gildi sömu reglur um VS afla á þorski og gildir 
um aflamark. 
Elding krefst þess að festir verði 48 dagar við strandveiðar. 
Elding styður að línuívilun verði sett á alla báta sem eru undir 30 tonnum og styttri en 15 metrar. 
Elding krefst þess að flotvörpuveiðar við loðnuveiðar verði tafarlaust bannaðar.Það hefur sýnt sig í aukningu grásleppuafla að þetta veiðafæri skaðar aðrar fisktegundir. 
Elding fer þess á leit að LS óski eftir tilboðum í tryggingar til handa félagsmönnum. 
Eldingar fer þess á leit að LS óski eftir tilboðum í skoðun á skoðunarskyldum búnaði á smábátum. 
Elding beinir því til aðalfundar LS að staðið verði vörð um þau réttindi sem smábátasjómenn hafa í dag og komi í veg fyrir hvers konar hugmyndir um stýrimann á dagróðrabátum sem eru undir 30 tonnum og 15 metrum. 
Elding vill óbreytta stjórnun á grásleppuveiðum og hafnar hvers konar hugmyndum um kvótasetningu. 
Elding gerir kröfu um að öll reiknilíkön sem Hafrannsóknastofnun notar til ákvörðunar um heildarafla verði rannsökuð af óháðri nefnd sem í muni sitja fiskifræðingar sem ekki starfa hjá Hafró, auk sjómanna. Áhyggjuefni er að himinn og haf er á milli upplifunar sjómanna til dæmis á stöðu þorskstofnsins og það sem Hafró leggur til að megi veiða. 
Elding styður áframhaldandi Hvalveiðar við Ísland.