Hörð viðbrögð við frumvarpsdrögum

Á undanförnum vikum hefur verið til kynningar í Samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi um breytingar á veiðum í fiskveiðilandhelgi Íslands.  Þar er gert ráð fyrir að ekki verði lengur skilyrt að aflvísir togskipa verði annað tveggja sem ræður hversu nálægt landi megi stunda veiðar, heldur verði einungis miðað við lengd skipa.  Auk þessa er lagt til að lengd lengra skipsins ráði þegar togað er eitt troll með tveimur skipum, en í dag er miðað við samanlagða lengd skipanna.
Aðför að veiðum og útgerð smábáta
Úr umsögn LS:
„LS harmar að ekki sé í frumvarpinu komið til móts við sjónarmið félagsins og telur óbreytt frumvarp vera aðför að veiðum og útgerð smábáta.  


Að óbreyttu verður frumvarpið til þess að þyngja sókn nær landi með togveiðarfærum.  Það er gert á sama tíma og Hafrannsóknastofnun stendur ráðþrota yfir því að stórir hrygningarstofnar þorsks hafi ekki skilað góðri nýliðun sl. fjörutíu ár.  Óumdeilt er að á þeim slóðum sem lagt er til að auka skuli sókn með togveiðarfærum er lífríkið viðkvæmt fyrir öllu raski.  Engu líkara en sú stefna hafi orðið ofan á að taka orkuskipti fram yfir lífríki hafsins.  LS gagnrýnir þá stefnu harðlega.


LS vekur jafnframt athygli á að samkvæmt skýrslu MATÍS frá 2014 er sótspor við veiðar á einu kílói þorsks á smábátum að meðaltali þriðjungur þess sem það mælist við togveiðar.  Enginn vafi leikur því á að hafi stjórnvöld hug á að að draga úr brennslu jarðefnaeldsneytis við veiðar er aukin hlutdeild smábáta í veiðum svarið.
221107 logo_LS á vef.jpg