VS-afli er afli sem landað er utan aflamarks þess skips sem veiðir aflann. Heimildin takmarkast við 0,5% af uppsjávarafla og 5% af öðrum sjávarafla. VS-aflaheimildin er takmörkuð við hvern ársfjórðung og óheimilt er færa uppsafnað milli fjórðunga. Ýsuafli og meðafli við grásleppuveiðar er undanþegin tímabilunum.
VS-afla er skylt að selja á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafla og skiptist 20% af andvirðinu milli útgerðar og áhafnar samkvæmt kjarasamningi. Það sem þá er eftir fer til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins að frádregnum kostnaði og hafnargjöldum.
Við skoðun á samanlögðum VS-afla í þorski á fyrstu tveimur tímabilunum á yfirstandandi fiskveiðiári og sama tíma á fiskveiðiárinu 2021/2022 hefur þróunin verið lóðbeint upp á við, aukningin nemur 122%. Myndin sem hér fylgir sýnir glöggt hver þróunin hefur verið.
Fjölmargar skýringar geta verið á þessu. Sú sem gerir strax vart við sig er að leyfilegur heildarafli í þorski er ekki í neinu samræmi við það sem sjómenn upplifa. Þorskur út um allan sjó. Þá kemur jafnframt upp í kollinn að einhver eða einhverjir sjái sér leik á borði og noti þessa tilhliðrun í lögunum til að ná fram meiri hagnaði án þess að ónægar veiðiheimildir kalli eftir því.
Vakin er athygli á að VS-afli bætist við leyfilegan heildarafla. Ef sama þróun heldur áfram gæti þorskafli sem VS endað í fimm þúsund tonnum sem er varlega áætlað tvöfalt meira en hefði þurft að bæta við leyfilegan þorskafla strandveiðibáta á síðasta ári til að tryggja 12 daga í hverjum mánuði, alls 48 daga.