Strandveiðar – engu breytt þrátt fyrir 131 umsögn

Dreift hefur verið á Alþingi þingskjali nr. 1353, stjórnarfrumvarpi um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða – svæðaskipting strandveiða.  Flutningsmaður frumvarpsins er Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra.  Frumvarpið hefur ekki verið sett á dagskrá þingsins en búast má við að það skili sér þangað á næstu dögum.  Ráðherra mun þá mæla fyrir frumvarpinu og í kjölfarið munu þingmenn ræða efni þess í 1. umræðu.  Að henni lokinni verða greidd atkvæði um hvort vísa eigi málinu til atvinnuveganefndar.
Atvinnuveganefnd mun leita eftir umsögnum um frumvarpið og undirbúa það til 2. umræðu.  
Það vekur sérstaka athygli að þrátt fyrir að 131 umsögn hafi borist í samráðsgátt hefur ráðherra og ráðuneyti hennar ekki séð ástæðu til að gera neinar breytingar.  Spyrja má af því tilefni til hvers samráðsgáttin sé.
LS sendi ítarlega umsögn um frumvarpsdrögin.
  
Megin áhersla LS er að fest verði í lög að strandveiðileyfi hafi að lágmarki 48 róðradaga.  Afnumið verði úr lögum þá skyldu Fiskistofu að stöðva strandveiðar á tímabilinu maí – ágúst.  Næði þessi einfalda breyting fram að ganga myndi ríkja sátt um strandveiðikerfið.  
230321 logo_LS á vef.jpg