Grásleppa – verðhækkun milli ára

Grásleppuvertíðin hófst 20. mars að undandskildum veiðum í innanverðum Breiðafirði þar sem upphafsdagur er 20. maí.   Veiði fór rólega af stað en hefur glæðst á undanförnum vikum.  Það mun hins vegar ekki nægja til að skila vertíðinni meðaltali síðastliðinna tíu ára.  
Á yfirstandandi vertíð er hverjum bát heimilt að stunda veiðarnar í 35 daga, en það er fjölgun um tíu daga frá í fyrra.  Þann 27. apríl höfðu veiðst 1.849 tonn.  Það er um fimmtungi minni afli en á sama tíma í fyrra.  
Alls hafa 122 útgerðir virkjað leyfi og af þeim hafa 20 lokið veiðum.  Fjöldi báta hefur lítið breyst milli ára, en sökum styttri vertíðar voru á þessum tíma 40 færri á veiðum en nú.  
Samkvæmt reglugerð um hrognkelsaveiðar er leyfilegur heildarafli 4.411 tonn.  970 tonn af því eru tekin frá fyrir svæðið við innanverðan Breiðafjörð.  Rúmur helmingur af heimildum annarra svæða hafa því verið nýttar.    
Aflaverðmæti er komið í rúmar 400 milljónir sem gefur meðalverð upp á 219 krónur á hvert kíló.  Kílóverð hefur hækkað um rúm fjörutíu prósentum milli ára og munar þar mest um vaxandi eftirspurn hjá Dönum í fersk hrogn.   Þriðjungur aflans hefur verið seldur á fiskmörkuðum á móti 23% á síðasta ári.
Unknown (1) copy 5.jpg