Alls stunduðu 166 bátar grásleppuveiðar á vertíðinni 2023. Aflinn þeirra nam 3 797 tonnum, en það er um 12% minna en í fyrra.
Veiðileyfi hvers báts takmarkaðist við 45 daga, fjölgaði um 20 milli ára. Veiðitímabilið var það lengsta í sögunni, stóð frá 20. mars til og með 31. ágúst. Undantekning þar á er innanverður Breiðafjörður þar sem veiðar hófust að venju þann 20. maí.
Þrátt fyrir fjölgun veiðidaga og lengingu tímabils tókst ekki að ná því magni sem leyfilegt var 4 411 tonn. Ákvörðun um heildarafla er byggð á stofnvísitölum frá Hafrannsóknastofnun, í þessu tilfelli árin 2022 og 2023. Stofnvísitala hefur farið lækkandi frá metárinu 2021 þegar hún mældist 14108, var í upphafi síðustu vertíðar 5352. Frá því Hafrannsóknastofnun hóf að mæla stofnvísitölu á grásleppu árið 2009 er meðaltalið 7263.
Grafið sýnir afla og ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sl. 10 ár. Eins og sjá má hefur veiði flest árin verið minni en ráðlagður heildarafli, ef frá er skilið árið 2015. Munurinn er 12% um sjöþúsund tonn. Kvótasetning m.t.t. verndunar stofnsins á því ekki við hvað þetta varðar.
Útflutningur magn og verðmæti
LS hefur unnið upplýsingar upp úr tölum Hagstofu Íslands um útflutning á frystri grásleppu, söltuðum grásleppuhrognum og grásleppukavíar. Samantektin nær til fyrstu 10 mánuði sl. fjögurra ára 2019 – 2023.
Í ár stendur útflutningsverðmætið í 1,1 milljarði. Það er viðsnúningur um 20% frá í fyrra, en fram til þess tíma höfðu verðmætin hrapað um rúman milljarð frá árinu 2019. Á því ári var verð viðunandi á söltuðum hrognum og frystri grásleppu, en verr gekk í kavíarnum.
Útflutningsverð á hvert kíló af frosinni grásleppu er á fyrstu 10 mánuðum þessa árs 94% hærra en á sama tímabili í fyrra auk þess sem magn hefur aukist um 45%. Hækkun hefur einnig orðið á kavíarnum sem nemur 21%. Sú prósenta kemur jafnframt fyrir í grásleppuhrognum, en því miður með öfugu formerki. Útflutningsverð á tímabilinu mars – október 105 þúsund fyrir hverja tunnu. Umreiknað jafngildir það EUR 706.