LS hefur sent umsögn í Samráðsgátt stjórnvalda við
frumvarpsdrög matvælaráðherra til laga um sjávarútveg.
„Við lestur frumvarpsdraganna er það mat LS að þar sé ekkert að finna sem styrki útgerð smábáta. Að eftir allt það starf sem unnið hefur verið sé það niðurstaðan að sniðganga mikilvægi smábáta og minni skipa við vistvæna nýtingu auðlindarinnar. Jafnframt að loka öllum leiðum til að bæta við veiðiheimildir sínar með umgjörð þar sem samkeppni verður ekki háð á jafnréttisgrundvelli. Aðgengi að fé til kvótakaupa er gjörólíkt, einstaklingsútgerðir háðar lánum frá bönkum, en útgerðir á markaði fá fé frá almenningi án þess að þurfa að greiða af því vexti.
Auk þessa er lagt til í frumvarpsdrögunum að skerða og afnema í áföngum línuívilnun sem hefur verið bjargræði margra útgerða, samhliða sem byggðafestu hinna dreifðu byggða er ógnað.“
Dæmi um athugasemdir við einstakar greinar
Um 38. gr. Frádráttur frá heildarafla
LS mótmælir harðlega að fallið verði frá að skylt verði að halda eftir 5,3% af leyfilegum heildarafla til að tryggja strandveiðar, línuívilnun og aðrar byggðatengdar aðgerðir. Með samþykkt greinarinnar verða þeir hundruð aðila sem byggja atvinnu sína á þessum veiðiheimildum að reiða sig á geðþótta ráðherra hverju sinni, „ráðherra er heimilt að draga frá ákveðið hlutfall í hverri tegund frá heildarafla hvers fiskveiðiárs“.
LS krefst þess að í stað „ráðherra er heimilt“ komi „ráðherra er skylt“. Um 50. gr. Aflamark
Þess er farið á leit að réttur til flutnings milli ára miðist við aflamark í lok fiskveiðiárs. Þannig fái skip sem flytur til sín aflamark rétt til flutnings milli ára sem ella væri áfram bundið við úthlutað aflamark þess sem lét frá sér heimildir.
Ný málsgrein sem verði 5. mgr. orðist svo: „Hafi aflamark verið flutt milli skipa flyst heimild til breytinga skv. 4. mgr. frá skipi sem flutt er af til þess skips sem flutt er til.“
Um 57. gr. Strandveiðar
Aths. 1. mgr. (viðbætur LS undirstrikaðar)
1. ml. orðist svo:
„Strandveiðum er ætlað að efla atvinnulíf í sjávarbyggðum um land allt, auka aðgengi að sjávarauðlindinni, styðja við nýliðun, fjölga störfum við sjómennsku, auka framboð á ferskum fiski yfir sumarið, auka framboð á fiskmörkuðum, styrkja fiskvinnslur sem háðar eru hráefni frá fiskmörkuðum og viðhalda verkkunnáttu og þeim menningararfi sem felst í handfæraveiðum“.
2. og 3. ml. falli niður. LS telur óþarft að leggja í kostnað og vinnu við að leggja mat á stöðu sjávarbyggð m.t.t. strandveiða, enda kemur ekki fram hver tilgangurinn er.
Aths. við 2. mgr.
Í stað „Á hverju fiskveiðiári er ráðherra heimilt að ráðstafa hlutfalli af heildarafla í óslægðum botnfiski til strandveiða …“, verði upphaf málsgreinarinnar: „Á hverju fiskveiðiári skal ráðherra ráðstafa hlutfalli af heildarafla í óslægðum botnfiski til strandveiða ...“.
Aths. við 3. mgr.
Í stað síðari hluta 1. ml.: „eða þar til leyfður heildarafli til strandveiða hefur verið veiddur“ komi nýr málsliður sem orðist svo: „Ráðherra er heimilt að fækka veiðidögum um einn eða tvo innan hvers mánaðar og tryggja þannig jafnræði milli landshluta.“
Það er krafa LS að strandveiðar verði heimilar í 12 veiðidaga innan hvers mánaðar.
Þar sem aflaheimildir til strandveiða hafa ekki fylgt vaxandi fiskgengd og fjölgun báta hafa strandveiðar verið stöðvaðar sl. fjögur ár. 2020 og 2021 upp úr miðjum ágúst, árið 2022 21. júlí og 2023 var lokadagur strandveiða 11. júlí.
Stefni í að veiðiheimildir til strandveiða nægi ekki til að tryggja veiðar í 12 veiðidaga innan hvers mánaðar, er óhjákvæmilegt að fækka dögum en á móti væri tryggt að veiðarnar standi yfir í jafnmarga daga í hverjum mánuði.
Aths. við 5. mgr. um skyldu Fiskistofu að stöðva strandveiðar. Krafa LS sbr. framangreint er að greinin falli brott.
Efni hennar stangast á við tillögu LS við 3. mgr. þar sem hún tryggir jafnræði milli landshluta með jafnmörgum veiðidögum innan hvers mánaðar, að lágmarki tíu.
Um 59. gr. Framkvæmd strandveiða
Aths. við 2. tl. 1. mgr. 2. ml. LS gerir þá kröfu að auk rafknúinna skipa fái bátar með mesta ganghraða 8 sjómílur heimild til 16 klukkustunda veiðiferðar.
Í skýringum með greininni er hún sögð samhljóða 6. gr. a. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006. Þegar rýnt er í „59. gr.“ á bls. 24 í frumvarpsdrögunum kemur í ljós að það er ekki rétt. Málsgreinar 9, 10 og 11 í 6. gr. a. hafa verið felldar út. Þegar greinin er skýrð á bls. 125 „Um 59. gr.“ er brottfallið skýrt á eftirfarandi hátt: „Lagt er til að felld verði brott heimild strandveiðiskipa til að landa ufsa í því magni sem ráðherra ákveður ár hvert án þess að sá afli teljist til hámarksafla“.
LS mótmælir harðlega ákvörðuninni og krefst þess að reglur um ufsaafla við strandveiðar verði óbreyttar. Þá lýsir LS undrun á þeirri vanvirðingu á að ákvörðunin sé ekki skýrð og rökstudd.
Til rökstuðnings kröfu LS er vísað til að á síðustu þremur fiskveiðiárum námu samanlagðar heimildir í ufsa 273 526 tonn, afli á tímabilinu var hins vegar aðeins 161 500 tonn. 112 026 voru óveidd. Miðað við verð á óslægðum ufsa á tímabilinu er aflaverðmæti þessa 20,7 milljarðar sem liggur nærri 40 milljörðum í útflutningsverðmæti.
Til áréttingar
Þar sem meginhluti strandveiðiaflans er boðinn upp á fiskmörkuðum hafa smærri fiskvinnslur átt kost á að verða sér út um fisk til vinnslu. Margar þeirra hafa ekki aðgang að veiðiheimildum og hafa þær því stólað á afla frá strandveiðum. Markaðsstarf þeirra er í mörgum tilfellum einskorðað við smá fyrirtæki sem greiða hátt verð. Þannig hafa orðið til verðmætir markaðir fyrir íslenskan þorsk sem veiddur er á handfæri yfir sumartímann.
Að takmarka aflaheimildir til strandveiða á undanförnum fjórum árum er glórulaus, ekki síst þar sem það liggur fyrir að strandveiðar hafa reynst fyrirferðamiklar í sjávarútvegsumræðunni og haldið aftur af óánægjuröddum sem beinast að stjórnkerfi fiskveiða.
Við ástundun strandveiða fær enginn neitt nema hann geri út, veiði sinn fisk og landi honum. Engar framseljanlegar heimildir. Afraksturinn sér viðkomandi í sölutölum fiskmarkaða sem hafa verið vel viðunandi. Það er mikil eftirspurn eftir fiski frá strandveiðibátum sem jafnan er seldur á hæsta verði hverju sinni.
Þrátt fyrir að 750 bátum hafi verið róið til strandveiða á sl. sumri og veiðiheimildir hafi aðeins dugað í 57% þess tíma sem strandveiðileyfið náði til, er það afar gagnrýnisvert að ekki sé lagt til í frumvarpsdrögunum að verða við vilja þjóðarinnar og leggja til auknar heimildir til strandveiða.