„Kvótasetning grásleppu snýst um að tryggja arðsemi“?

Grein eftir Örn Pálsson birt á Vísi – Skoðun.

Sjá greinina í heild.

Útdráttur

Það er skoðun mín að fækkun báta stafi ekki af því að grásleppan er utan kvóta.  Fjöldi á veiðum ræðst af öðrum þáttum.  Eftirspurn, leyfilegum heildarafla, væntanlegri veiði og verði sem í boði er.  Jafnframt möguleikum til annarra veiða, atvinnuástandi og fleiri þáttum.  

Þá er ótalið að markaður fyrir afurðina hefur dregist saman um þriðjung á sl. tveimur áratugum og er nú aðeins helmingur sem hann var fyrir 30 árum.  Auk þess sem Grænlendingar eru orðnir jafnokar okkar í veiðum.  

Árin 2020 og 2021 varð offramboð sem olli verðfalli eftir gríðarhátt verð 2019.  Veiðar á sl. þrem vertíðum guldu þessa með minni eftirspurn, lágu verði og fækkun báta á grásleppu.  Sambærileg dæmi hafa átt sér stað gegnum árin, t.d. 2010, 2011 og 2012, þegar heimsveiðin fór vel umfram eftirspurn.

Myndin sýnir fjölda báta á veiðum sl. 20 vertíðir. 

Screenshot 2024-03-18 at 10.16.16.png

Ítrekuð var andstaða LS við frumvarpið sem fram kom í umsögn félagsins við það, samhliða að bætt var við eftirfarandi þáttum.

1.        Fyrir Landsrétti er þjóðin í vörn gegn kröfu Vinnslustöðvarinnar hf. og Hugins ehf. um að fá greiddar bætur vegna kvótasetningar á makríl.  Ef allt fer á versta veg kostar það þjóðina á annan milljarð.  Auk þess sem niðurstaðan gæti orðið fordæmisgefandi fyrir aðrar stórútgerðir sem leitt gæti til tíföldunar upphæðarinnar.

2.        Nýlegur dómur í Landsrétti sagði seljanda eiga rétt til aflaheimilda í makríl en ekki kaupandi viðkomandi báts.  Frumvarpið gæti leitt af sér ómæld vandræði fyrir aðila sem keypt hafa grásleppubáta með veiðireynslu.  

3.        Fyrir tveimur áratugum ákvað þv. sjávarútvegsráðherra að kvótasetja smábáta þar sem ákveðinn fjöldi daga voru ígildi veiðiheimilda, eins og nú gildir um grásleppuna.   Þá var ákveðið að skipta samkvæmt aflareynslu, en jafnframt að tryggja að allir fengju ákveðið lágmark – 15 tonn af óslægðum þorski.

4.        Í 75. grein stjórnarskrár hins íslenska lýðveldisins segir:  „Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.“  

Alls 400 sjálfstæðar útgerðir hafa rétt til að stunda grásleppuveiðar að atvinnu.  Með frumvarpinu er meirihluta þeirra gert ókleif að stunda veiðarnar.

Að mati  Hafrannsóknastofnunar er grásleppan ekki ofveidd innan núverandi veiðistjórnunarkerfis.  Stjórnunin tryggir öllum grásleppubátum jafnmarga daga til veiða.  Fullyrða má að almannahagsmunir krefjist þess ekki að þeir séu sviptir þeim rétti.

Við þessi skrif fékk ég símtal frá grásleppusjómanni sem hlýtt hafði á frétt RÚV.  Hann spurði:  Arðsemi fyrir hvern?  

Örn Pálsson framkvæmdastjóri

Landssambands smábátaeigenda