Stjórn Fonts – smábátaeigendur á NA-landi – hefur sent frá sér ályktun um strandveiðar og byggðakvóta. Þar segir m.a.
Tryggja ber jafnræði milli landshluta
Í strandveiðihluta ályktunarinnar segir að treysti stjórnvöld sér ekki til að tryggja veiðiheimildir í 48 daga eins og segir í lögum um stjórn fiskveiða, sé óhjákvæmilegt að fækka dögum úr 12 í hverjum mánuði í 10. Samhliða þeirri breytingu falli brott ákvæði um skyldu Fiskistofu að stöðva veiðar á strandveiðitímabilinu.
Með breytingunum verði jafnræði tryggt milli allra landshluta.
Byggðakvótar
„Almennur byggðakvóti hefur það fram yfir sértækan að skilyrði um að fiskiskip landi tvöföldu því magni sem þau fá úthlutað til vinnslu innan viðkomandi byggðarlags eru einföld, skýr og hafa reynst vel í framkvæmd. Fiskistofa hefur eftirlit með að þau séu uppfyllt og nákvæmt yfirlit yfir stöðu almenns byggðakvóta er alltaf aðgengilegt á vef Fiskistofu. Almennur byggðakvóti er háður lágmarksverði til sjómanna og skilar viðkomandi hafnarsjóðum því eðlilegum tekjum.
Byggðastofnun hefur lögum samkvæmt eftirlit með nýtingu á sértækum byggðakvóta en þar liggja ekki fyrir neinar opinberar upplýsingar um raunverulega framkvæmd samninga um þann kvóta, sem verður að teljast undarlegt í ljósi þeirra miklu verðmæta sem felast í þeim samningum.“