Lokadagur grásleppuvertíðar 2024 var 12. ágúst. Heimilt var að stunda veiðarnar í 55 daga, mun fleiri en undanfarin ár. Meðaltal sl. 10 ára eru 40 dagar.
Færri sáu sér fært að stunda veiðarnar en verið hefur, aðeins 140 bátar lönduðu afla. Fara þarf allt aftur til ársins 2007 til að finna viðlíka tölu, einum færri þá vertíðina.
Væntanlega hefur lágt verð haft áhrif á þátttökuna, en meðalverð á mörkuðum var 233 krónur. Það er nánast óbreytt milli ára, en 10% hærra en 10 ára meðaltal. Hæst var verðið á tímabilinu 2015 – 2024 árið 2019 en þá fengust 332 kr fyrir kílóið af óslægðri grásleppu.
Vertíðin skilaði 3.701 tonnum, sem jafngildir rúmum sjöþúsund tunnum af söltuðum hrognum. Miðað við verð á fiskmörkuðum var aflaverðmætið á vertíðinni um áttahundruð milljónir.
Aflinn er nokkuð minni er Hafrannsóknastofnun mælti með – 4.030 tonn. Tíu ára meðaltal í ráðgjöf er 5.916 tonn en afli á tímabilinu 5.002 tonn að meðaltali.
Afli var að meðaltali 26,4 tonn á bát, en það er um 13% meira en tíu ára meðaltal. Aflahæst var Kóngsey ST 4 með 73,5 tonn.