Frosin grásleppa – aukið magn en verð óviðunandi, hvað sem síðar verður

Á fyrstu 8 mánuðum ársins hafa verið flutt út 1.192 tonn af frosnum grásleppubúki.  Hátt í níutíuprósent magnsins hefur farið til Kína og það sem uppá vantar til Hong Kong. 

Svo virðist sem markaðurinn sé að taka við sér, magnið nú tveimur þriðju meira en það var á sama tímabili í fyrra.  Útflutningsverðmæti nemur 192 milljónum, sem er óviðunandi og hamlar verðhækkunum til grásleppusjómanna. 

Til þessa hafa Kínverjar ekki mætt neinni samkeppni.  Á því gæti orðið breyting þar sem á Íslensku sjávarútvegssýningunni var boðið uppá grásleppubollur sem búnar eru til úr kaldreyktum flökum grásleppunnar.  Þær eru tilkomnar fyrir samstarf Bjargs ehf á Bakkafirði, BioPol á Skagaströnd þar sem flökin eru kaldreykt, Háskólans á Akureyri og Bakkasystra.  Var það einróma álit, þeirra hundruða sem náðu að bragða á grásleppunni framreidd á sýningarsvæði Landssambands smábátaeigenda, að hér væri um prýðisgóða vöru að ræða. 

Matvælaráðherra gæðir sér á grásleppunni

Þar sem flakið vegur aðeins 17% af heildarþyngd grásleppunnar er magnið sem til fellur á hverri vertíð lítið.  Það ætti að gefa tækifæri til eftirspurnar og viðunandi verðs.  Mikill hugur er í Bakkasystrum um að koma vörunni á markað og kynna hana sem lúxusvöru.   Hér má lesa umfjöllun Fiskifrétta þar sem rætt var við eina af Bakkasystrum – Evu Maríu Hilmarsdóttur.