Áskorun til verðandi alþingismanna

Eftirfarandi grein eftir Magnús Jónsson formann Drangeyjar – smábátafélags Skagafjarðar og í stjórn LS birtist í Feyki í dag.

Screenshot

Á nýlega afstöðnum landsfundi Landssambands smábátaeiganda (LS) var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða af um 70 fulltrúum allra þeirra 16 svæðisfélaga sem eiga aðild að LS:

„Aðalfundur Landssambands smábátaeiganda skorar á stjórnvöld að beita sér fyrir að gera tíma­­bundna tilraun til 3-5 ára um breytt fyrirkomulag strandveiða. Tilraunin felst í því að heimilt verða að veiða allt að 12 daga í mánuði í fjóra mánuði, sbr. lög þar um, án þess að til stöðvunar veiða komi. Með þessari tilraun yrði sóknarkerfi strandveiðanna skilið frá aflamarkskerfinu enda er það bæði rökrétt og í samræmi úrskurð mannrétt­­inda­nefndar SÞ frá 2007. Um leið hyrfi öll samkeppni milli svæða, staða og útgerða úr strandveiðikerfinu og öryggi veiðanna yrði þannig í fyrirrúmi.

Nokkur atriði til viðbótar mæla með því að slík tilraun verði gerð:

  1. Handfæraveiðar eru jafngamlar byggð á Íslandi og hér er því um að ræða meira en 1000 ára gömul mann- og atvinnuréttindi.
  2. Handfæraveiðar eru meðal umhverfisvænustu veiða sem til eru og hafa hvorki hér né annars staðar í heiminum ógnað fiskistofnum.
  3. Nánast fullkominn fyrirsjáanleiki yrði fyrir alla aðila sem hagsmuna eiga að gæta; aflamarkshafa, strandveiðisjómenn, fiskkaupendur, fjölda landfyrirtækja og sveitar­félaga­/hafna.
  4. Þar sem aflabrögð á strandveiðum fara fyrst og fremst eftir gæftum og fiskimagni á miðunum yrði afli breytilegur allt í kringum landið og frá ári til árs. Slíkt yrði mikilvæg viðbót við rannsóknagögn sem vísindamenn fengju þá aðgengi að (handfærarall).
  5. Verði þessi tilraun gerð er eðlilegt að svokallaður 5,3% pottur kvótakerfisins verði minnkaður niður í ca. 3%. Þannig væru strandveiðarnar algerlega utan aflamarkskerfisins og togstreyta milli þessara veiðikerfa heyrði þá sögunni til.

Miðað er við að þessi tilraun hefjist vorið 2025.“

Hér með er skorað á alla þá sem kjörnir verða á Alþingi í komandi kosningum að beita sér fyrir því að þessi tilraun verði gerð. Með henni væri verið að stíga mikilvægt skref í því að ná meiri sátt um stjórn fiskveiða hér á landi en nú er. Strandveiðar og starfsemi í kringum þær í sjávar­plássum landsins eru mikilvægur þáttur í atvinnulífi þeirra auk þess að efla aðrar atvinnugreinar eins og ferðaþjónustu á þessum stöðum. Í skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ í fyrra kom fram að rúm 72% þjóðarinnar styður eflingu strandveiða. Loks má benda á að afli sem fæst á strand­veiðum er sá verðmætasti sem landað er hér á landi og kaupendur hafa greitt a.m.k. 20% hærra verð fyrir fisk frá strandveiðibátum en frá fiskveiðiflotanum almennt. Þannig eru slíkar veiðar þjóðhagslega afar hagkvæmar um leið og þær skilja eftir sig minna kolefnisspor en nokkrar aðrar veiðar hér við land.

F.h. Drangeyjar-smábátafélags Skagafjarðar 
Magnús Jónsson 
formaður og meðlimur í stjórn Landssambands smábátaeiganda