Birt hefur verið í Stjórnartíðindum reglugerð um úthlutun aflamarks í grásleppu til nýliða.
Í 2. gr. reglugerðarinnar er skilgreining á hverjir teljist nýliðar og eiga þannig rétt á aflamarki úr afla sem dreginn er frá við úthlutun samkvæmt aflahlutdeild (5,3%)
„2. gr.
Nýliði samkvæmt reglugerð þessari telst sá aðili sem á skip, sem ekki hefur skráða aflahlutdeild og hefur ekki fengið aflahlutdeild í grásleppu vegna fiskveiðiársins 2024/2025.“
Fiskistofa mun auglýsa eftir umsóknum um aflamark fyrir skip í eigu nýliða og úthluta aflamarki í grásleppu á grundvelli umsókna. Aflamark til nýliða mun skiptast jafnt og getur hver þeirra fengið að hámarki 0,4% af leyfilegum heildarafla.
Alls óvíst er hver verður leyfilegur heildarafli á vertíðinni 2025, en verði hann 4.030 tonn eins og á síðustu vertíð koma 214 tonn til skipta, hámark á hvern bát 16 tonn.
__________________________________
LS minnir á orðsendingu Fiskistofu frá 21. nóvember sl. varðandi mikilvæg atriði um hlutdeildarsetningu grásleppu.
- Flutningur veiðireynslu: Áður en til úthlutunar kemur er leyfilegt að flytja veiðireynslu á milli skipa ef breyting hefur orðið á skipakosti, svo sem kaup, sala skips eða skip tekið af skipaskrá. Skila þarf in beiðni um flutning fyrir 2. janúar 2025.
- Flutningur hlutdeilda og hámarksaflahlutdeild: Óheimilt er að flytja hlutdeildir í grásleppu milli skipa til 31. ágúst 2026 nema verið sé að gera ráðstafanir til að koma skipum sem fá umfram 1,5% í lögbundið hámark.
- Heimahöfn – staðbundin veiðisvæði: Þegar hlutdeildum er úthlutað þá festist hlutdeildin og aflamarkið á því veiðisvæði sem skipið er skráð á á þeim tímapunkti. Fiskistofa miðar í því sambandi við heimahöfn skips samkvæmt skipaskráSamgöngustofu.