Víðtæk andstaða við kvótasetningu grásleppu 

Á árlegum upplýsingafundi um grásleppumál, LUROMA 2025, sem haldinn var í Kaupmannahöfn 7. febrúar sl. komu til umræðu breytingar sem gerðar hafa verið á veiðistjórn grásleppu hér á landi.  Málefnið fékk ítarlega umræðu og var einróma niðurstaða sú að breytingin rýrði möguleika sjómanna til veiða og gæti þannig haft skaðleg áhrif á markaðinn.

Á fundinum kom fram að heildarveiði á grásleppu á árinu 2024 jafngilti um 23 þúsund tunnum (mælieiningin „tunna“ innifelur 105 kg af grásleppuhrognum).  Magnið er um 10% meira en meðaltal undangenginna tíu ára.

Grænlendingar hafa á síðustu árum verið að auka hlutdeild sína í heildarafla og er árið í fyrra engin undantekning.  Hlutur þeirra þá var sá mesti frá upphafi 63%. Hlutur okkar Íslendinga hefur farið minnkandi á sl. árum og var komin niður í 31% í fyrra.  Meðaltal sl. 5 ára er að Grænland er með 53% en Ísland 41%.

LUROMA 2025, sátu fulltrúar frá Íslandi, Danmörku, Grænlandi, Svíþjóð, Nýfundnalandi og Noregi.  Voru það jafnt fulltrúar sjómanna, kaupenda og framleiðenda grásleppukavíars.