Grásleppuafli í botnvörpu hefur margfaldast milli ára. Frá 1. febrúar hafa verið seld á fiskmörkuðum 30,7 tonn af trollveiddri grásleppu. Það er sexfalt meira magn en veiddist í veiðarfærið á sama tíma í fyrra. Miðað við þennan mikla mun mætti halda að stærð grásleppustofnsins hafi margfaldast milli ára, sem verður að teljast vafasamt.
Trollbátum er skylt að koma með grásleppuna að landi en netabátar eiga að sleppa henni sé hún lifandi. Hvernig bregðast skuli við er afar óljóst. Líklegt er að einhverjar útgerðir stóli á nýliðunarkvótann þar sem engar stærðartakmarkanir eru. Færsla aflamarks til þeirra er hins vegar óheimil þar sem þau hafa ekki aflahlutdeild.
Þegar þetta var útskýrt fyrir viðmælanda sem heimsótti skrifstofu LS í dag varð honum að orði: „Þetta eru nú meiri ólögin, það verður að afnema þau strax, hverjum datt t.d. í hug að heimila úthlutun á nýliðunarkvóta til allra stærða skipa“?