Hér á heimasíðunni hefur verið greint frá úthlutun á nýliðunarkvóta í grásleppunni. Megn óánægja er á því hvernig honum hefur verið ráðstafað. Ljóst er veiðiheimildirnar koma ekki til með að aðstoða væntanlega nýliða til að hefja grásleppuveiðar.
Alls 48 bátar fengu úthlutað aflamark úr nýliðunarpotti að meðaltali 1,4 tonn á bát. Dæmi eru um að bátar sem ekki hafa veiðileyfi eða verið haldið til veiða í áratug hafi fengið úthlutun. Engar takmarkanir eru á framsali á nýliðunarkvótanum. Líklegt er að flestir notfæri sér það enda fátt annað í boði þar sem lögin heimila þeim ekki að bæta við sig heimildum. Forsenda þess er að viðkomandi hafi aflahlutdeild sem er ekki fyrir hendi hjá nýliðum.
LS hefur sent Matvælaráðuneytinu bréf þar sem spurt er hvort fyrirhugað sé að gera ráðstafanir fyrir þá aðila sem stunduðu grásleppuveiðar á árunum 2023 og 2024 þannig að þeir geti haldið áfram veiðum?
Rétt er að vekja athygli á hvernig fv. formaður atvinnuveganefndar Þórarinn Ingi Pétursson kynnti málið fyrir þingmönnum á Alþingi þann 21. júní 2021.
„En það er eitt mjög mikilvægt atriði sem ég hef ekki komið inn á sem snýr að nýliðun í þessari atvinnugrein. Hér er lagt til að það verði 5,3% árlega af heildaraflamarki sem ráðherra verði heimilt að úthluta til nýliða. 5,3% er ansi mikið af heildaraflamarki og ég kom inn á það áðan að við erum að tala um að hámarkshlutdeild í heildaraflamarki er 1,5% þannig að nýliði sem vill hefja rekstur og grásleppuútgerð á greiðan aðgang þarna inn. Hann þarf ekki að kaupa sig inn í greinina nema hann vilji en þessi pottur er til staðar.“
Við þessa uppákomu þyngist krafa LS um að fram komi frumvarp um breytingar á lögum á veiðistjórn grásleppu þar sem veiðistýring verði færð í fyrra horf. Stjórnað verði með takmörkunum á fjölda leyfa og daga sem net eru í sjó auk þess að heimilt verði að sameina leyfi.