Sl. föstudag 21. mars átti LS fund í Atvinnuvegaráðuneytinu um drög að breytingu á reglugerð um strandveiðar 460/2024. Á fundinum lagði LS áherslu á að við ákvörðun yrði tekið tillit til sjónarmiða félagsins sem fram komu í athugasemd þess í Samráðsgátt stjórnvalda.
Færð voru rök fyrir kröfu LS um að eigandi lögaðila sem er lögskráður á fiskiskip á standveiðitímabilinu skuli eiga jafnan hlut á við aðra eigendur í lögaðilanum, í stað tillögu ráðuneytisins um meirihluta.
Jafnframt var lögð áhersla á að tillögur um breytt eignarhald lögaðila myndi ekki gilda um báta í sameiginlegri eigu foreldra, barna, tengdabarna og barnabarna. Ekki síst þar sem krafa um hertar reglur tengdar eignarhaldi væru þeim hóp óviðkomandi.
Á fundinum leitaði LS svara við skilyrðum sem þyrfti að uppfylla í umsókn um strandveiðileyfi. Samkvæmt drögum að breytingu á reglugerð yrðu þær að hafa borist fyrir 15. apríl. Í tillögum ráðuneytisins ætti að tiltaka hvenær viðkomandi ætli að hefja veiðar, auk þess hver eða hverjir munu róa viðkomandi bát í sumar.
Fiskistofa afgreiðir leyfin svo fljótt sem unnt er og fer þá yfir þau atriði sem uppfylla verður fyrir leyfinu, þ.e. bátur með gilt haffærisskírteini, stjórnendur með full réttindi og að kennitala lögaðila og þeir sem eru á bakvið hana tengist ekki öðru strandveiðileyfi. Þar fyrir utan verður að uppfylla fyrirhugað ákvæði um eignarhald í væntanlegri reglugerð.
Á fundinum ítrekaði LS ábendingar um lagabreytingu þannig að 4.000 tonna makrílpottur til smábáta yrði boðinn upp fyrir þorsk á skiptimarkaði Fiskistofu.
Þá ítrekaði LS áður framkomna ábendingu um að undanfarin sjö fiskveiðiár hefði mismunur á útgefnum heimildum í þorski og afla verið 49 þúsund tonn að meðaltali sjöþúsund tonn á ári. Af þeim sökum ætti skilyrðislaust að bæta heimildum við strandveiðar og línuívilnum til að hámarka árlegar útgefnar heimildir í þorski með veiðum.

Vænta má að Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra undirriti reglugerð um breytingar á reglugerð um strandveiðar á næstu dögum.
