Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra efndu til kynningarfundar fyrr í dag um breytingu á lögum um veiðigjald.

Málefnið er kynnt sem leiðrétting á gjaldinu þar sem í ljós hafi komið að fiskverð í reiknistofni hafi verið vanmetið. Í frétt af fundinum segir: „Stærstur hluti viðskipta með veiddan fisk fer frá útgerð til vinnslu sem er í eigu sömu aðila og eru því um bein viðskipti að ræða. Verðmyndun þessara viðskipta hefur ekki verið í samræmi við verðmyndun á mörkuðum.“
Brugðist er við þessu í frumvarpinu fyrir þorsk og ýsu þar sem miðað verður við verð á fiskmörkuðum innanlands. „Fyrir uppsjávartegundirnar síld, kolmunna og makríl verður miðað við markaðsverð í Noregi yfir íslensk veiðitímabil“, eins og segir í sameiginlegri frétt frá Fjármála- og Atvinnuvegaráðuneytinu.
Til að mæta áhrifum á hækkun veiðigjalds á minni botnfiskútgerðir verður frítekjumark hækkað í 50% af fyrstu 10 milljónum álagningarinnar og verður 30% hjá hverjum gjaldskyldum aðila upp að 20 milljónum. Þá er lagt til að fjárhæðirnar taki breytingum skv. vísitölu neysluverðs frá janúar 2024.