Magnús Þór Hafsteinsson – minningarorð

Útför Magnúsar Þórs Hafsteinssonar fer fram frá Akraneskirkju, í dag 11. júlí, klukkan 13:00. Í Morgunblaðinu birtist eftirfarandi minningargrein um Magnús Þór.

Það var í seinnihluta apríl 2023 er ég heyrði í Magnúsi Þór.  Hann var reifur að vanda og tilkynnti mér að nú væri hann kominn með bát, allt að verða klárt til strandveiða það árið.  Ormurinn langi AK64.  Þrátt fyrir nafnið var hann í raun virkilegur smábátur.  

Ég fylgdist nokk með Magnúsi það sumarið og undraðist hversu vel honum gekk á sínu fyrsta ári á strandveiðum 11 róðrar í maí og alslemma í júní.  Þegar lokað var 11. júlí sagði Magnús mér að hann væri búinn að fá nóg það sumarið.  

Árið eftir endurtók hann sama mynstrið, minna mátti það ekki vera hjá mínum manni.  Afkoman leyfði að endurnýja Orminn langa, m.a. var sett í hann ný vél sem malaði eins og köttur á leið á og af miðunum.  Fyrsti mánuður var af þessum sökum ásamt annarri vinnu nokkuð brokkgengur, enda í lagi þar sem búið var að tryggja 48 daga.  Júní var Magnúsi hins vegar drjúgur, hann komst í 10 róðra þrátt fyrir brælur sem gerðu sjósókn erfiða.

Magnús var félagsmaður í Landssambandi smábátaeigenda.  Til hans sótti ég ráð í hagsmunabaráttu.  Enda var Magnús mikill reynslubolti í þeim efnum, fiskifræðingur að mennt og fyrrverandi alþingismaður Frjálslynda flokksins 2003 – 2007.

Allt frá því ég kynntist Magnúsi vafðist það ekki fyrir mér að þar fór maður mikilla afkasta.  Fljótur með fréttir á RÚV þegar hann starfaði þar.  Á Alþingi kom hann í veg fyrir gríðarlega verðmætasóun sem viðgengist hafði með því að koma á VS-afla kerfinu.  Þá hafa þýðingar hans á ævi Winston Churchill og fræðibók David Attenborogh vart farið framhjá landsmönnum.

Magnúsi þakka ég fyrir baráttu hans fyrir auknum veiðrétti  trillukarla.

Fyrir hönd Landssambands smábátaeigenda votta ég aðstandendum Magnúsar innilega samúð.

Örn Pálsson