Strandveiðar stöðvaðar

Fiskistofa hefur birt tilkynningu um stöðvun strandveiða. Stofnunin hefur sent auglýsingu þess efnis sem mun birtast í Stjórnartíðindum. Þar kemur fram að strandveiðar eru bannaðar frá og með 17. júlí.

Ákvörðun Fiskistofu er tekin á grundvelli ákvæðis í lögum um stjórn fiskveiða sem orðast svo:

„Þá skal Fiskistofa með auglýsingu í Stjórnartíðindum stöðva strandveiðar þegar sýnt er að leyfilegum heildarafla, að ufsa undanskildum, verði náð samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur um strandveiðar fyrir hvert ár.“

Það eru gríðarleg vonbrigði að ekki hafi tekist að koma í veg fyrir stöðvun veiðanna. Vendipunkturinn var að frumvarp atvinnuvegaráðherra fékkst ekki samþykkt á Alþingi. Þrátt fyrir 20 klst. umræðu um málið varð það ekki eitt þeirra málefna sem ákveðið var að afgreiða í þinglokasamningi.

Í strandveiðifrumvarpinu um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða var ákvæði um skyldu Fiskistofu um stöðvun vikið brott.

Þegar það var ljóst var gert ráð fyrir að ráðherra myndi bæta við veiðiheimildum þannig að ákvæði um stöðvun fengi ekki virkni. Ráðherra hefur hins vegar enn ekki séð sér fært að bæta við meiru en 1.032 tonnum.

Í fréttum Sjónvarpsins í kvöld sagði að enn væri verið að leita leiða til að bæta við veiðiheimildum.

LS hefur í þessari viku sent Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra tvö bréf um stöðu strandveiða og hvatningu til að bæta við veiðiheimildum. Hér eru afrit af bréfunum.