Arnar Magnússon trillukarl ársins

Við opnunarhátíð sjávarútvegssýningarinnar Sjávarútvegur 2025 var kynnt tillaga LS um trillukarl ársins.  Fyrir valinu varð Arnar Magnússon úr Garði, eigandi Golu GK41 sem hér sést með viðurkenningu Sjávarútvegssýningarinnar.

Fv. Arnar Magnússon, Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Jón Steinar Sæmundsson, sem veitti viðtöku viðurkenningu frá SFS fyrir hönd alls starfsfólks í sjávarútvegi í Grindavík.

Örn Pálsson kynnti Arnar og sagði eftirfarandi:

Arnar hefur stundað sjómennsku frá unga aldri.  Síðasta aldarfjórðung hefur hann veitt með handfærum.

Arnar er annnálaður fyrir aflasæld, vandaða meðferð á afla og gætni við sjómennskuna.  Hann er einstaklega athugull gagnvart öryggi á sjó og hjálpsamur.  Aðrir sjómenn eiga auðvelt með að leita til Arnars sem miðlar þeim úr sínum reynslubrunni.

Að sögn Arnars stendur einn dagur upp úr í hans sjómennsku.  

Þá  var hann á útleið á þriðja tímanum eftir miðnætti þann 16. maí í fyrra.  Strandveiðibátar streymdu á miðin í afbragðs veðri.  Arnar ræddi stuttlega við vin sinn til 40 ára rétt fyrir utan innsiglinguna í Sandgerði.  

Ég gef honum orðið:

Þegar utar var komið sýndist mér gámur vera á floti.  Þegar betur var að gáð sá ég að þetta var bátur sem maraði í kafi, ég tók hring og þegar ég kom nær og sá nafnið á bátnum þá fékk ég sting í hjartað. 

Þetta var bátur vinar míns sem ég hafði verið að tala við, en hann var hvergi sjáanlegur.  Fjöldi hugsana um að finna hann, ná honum útúr bátnum flugu um huga minn.   Þá skaut honum skyndilega upp. Hann hafði náð að koma sér í flotgallann.  Mér tókst að hugsa rökrétt, náði til hans en gat ekki bifað honum. Þá hugkvæmdist mér að skera skálmarnar af flotgallanum sem voru fullar af sjó og með einhverjum óskiljanlegum mætti tókst mér að draga hann um borð hjá mér.

Sagði honum að slaka á.  Hann var ískaldur. Lét hann hafa hlý föt og kaffi og nuddaði hann til að reyna að fá hita í hann.  

Við knúsuðumst í gleði okkar og geðshræringu.

Arnar var búinn að vera 44 ár á sjó  þegar þetta gerðist.  Hann lýsir þessum degi sem stærsta róðri lífs síns.   

Til hamingju Arnar