Frá júlí sl. hefur verið ólmast með dragnót í fjörum Skagafjarðar. Gárungar segja að gengið hafi verið svo nálægt jarðnæði og árósum að vart hafi verið við hross í afla bátana.
Hér eru engin smáskip á ferðinni, allt að 250 tonn sem stærst er. Alls 5 skip á stærðarbilinu 77 – 250 brúttótonn. Minnsta lengd þessara skipa er 22 metrar.
Frá 1. júlí sl. hafa skipin landað alls 1.931 tonni á Sauðárkróki sem gera má ráð fyrir að veitt hafi verið í firðinum. Af því eru aðeins 96 tonn af skarkola. Megnið af aflanum er ýsa 1.433 tonn. Þorskafli skipanna var 331 tonn.
Það vekur athygli að alls 79 tonnum er landað sem VS-afli, 44 tonnum af þorski og 35 tonnum af ýsu.
Félagsmenn í Drangey – smábátafélagi Skagafjarðar – hafa mótmælt þessum veiðum harðlega og sent frá sér ályktanir og hefur Byggðaráð Skagafjarðar stutt félagið í málflutningi sínum.
Á aðalfundi Drangeyjar sem haldinn var 17. september sl. var málefnið til umræðu. Eftirfarandi var samþykkt:
Drangey – smábátafélag Skagafjarðar skorar á stjórnvöld að endurskoða tafarlaust veiðiheimildir með dragnót upp í fjörur í fjörðum og flóum norðanlands. Ljóst er að rannsóknir á áhrifum þessarra veiða eru litlar og algerlega ófullnægjandi, ekki síst þar sem þessar veiðar eru stundaðar á hrygningarsvæðum mikilvægra fiskistofna. Þá samræmast þessar veiðar illa þeim markmiðum stjórnvalda að auka stórlega friðun með botndregnum veiðarfærum umhverfis Ísland.
Sjá nánar umfjöllun um fundinn
