LS hefur sent Eyjólfi Ármannssyni innviðaráðherra bréf þar sem þess er farið á leit að hann gefi nú þegar út reglugerð um línuívilnun og hún verði látin gilda frá upphafsdegi yfirstandandi fiskveiðiárs.
Í bréfi LS segir m.a.:
„Megin ástæða þess að útgerðir hafi ekki allar innleitt nútímatækni þ.e. sett um borð beitningavél er að hagkvæmni þess er ekki fyrir hendi vegna skorts á aflaheimildum. Þeir eru háðir því að leigja til sín heimildir og drýgja þær með ívilnun. Jafnframt er fyrir hendi mikil tryggð og tengsl við starfsfólk sem á flest langan starfsaldur við beitningu hjá útgerðunum.“
Vekur upp spurningar um áframhaldandi rekstraröryggi:
„Allt skipulag; boðun starfsfólks til vinnu, innkaup á beitu, línu, önglum og þess sem til þarf tók mið af línuívilnun kæmi til framkvæmda 1. september sl. eins og undanfarna rúma tvo áratugi. Það eru því gríðarleg vonbrigði að enn hafi ekki verið gefin út reglugerð um heimildir til línuívilnunar í einni einustu þeirra 6 tegunda sem hún tekur til. Eins mánaðar biðtími hefur valdið vandræðum og vakið upp spurningar um áframhaldandi rekstraröryggi viðkomandi útgerða.
Það er skoðun LS að verði línuívilnun aflögð muni það leiða til forsendubrests á útgerð fjölda báta. Samþjöppun óhjákvæmileg þar sem þeir stærstu leysa til sín aflaheimildir. Bátar verða verkefnalausir sem krókaaflmarksbátar. Þeir verði gerðir út til strandveiða, sem yki á þrýsting á það veiðikerfi. Það er því nauðsynlegt að tryggja aflaheimildir til línuívilnunar allt árið.“
Bréfið í heild