Á fundi með sjávarútvegsráðherra sl. mánudag lagði LS
fram tillögur sínar um heildarafla á næsta fiskveiðiári. Í töflunni sem hér fylgir eru í fyrsta dálki
tillögur LS, í mið dálkinum ráðgjöf Hafró og því næst ákvörðun ráðherra um
heildarafla á fiskveiðiárinu 2011 / 2012.
Eins og þarna kemur fram mælti LS með því að ákvörðun um
heildarafla í grásleppu verði ekki ákveðinn fyrr en 15. febrúar 2012.
Þorskur
– leyfilegur heildarafli verði 200 þús. tonn
Á fundinum lagði LS áherslu á að stjórnvöld endurskoði
nýtingarstefnu fyrir þorsk – krafan er að það verði gert nú þegar. Komið hefur í ljós að aflaregla sem byggt er
á tekur einvörðungu mið af togararalli Hafrannsóknastofnunarinnar, annar þekkingarbrunnur er
ekki notaður, svo sem afladagbækur, þekking og ráðleggingar sérfræðingahóps
skipstjóra. Þá er tugaprósenta stækkun
hrygningarstofns á sl. árum að engu hafður við ráðgjöf Hafró um heildarafla.
LS studdi mál sitt fjölmörgum rökum sem byggð voru á
tölum úr ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar.
Ýsa
– leyfilegur heildarafli verði 50 þús. tonn.
Í máli LS kom m.a. eftirfrandi fram: Ekkert lát er á góðri ýsuveiði
krókaaflamarksbáta á grunnslóð.
Niðurstaða Hafrannsóknastofnunarinnar um niðurskurð í ýsu er í fullu samræmi við minnkandi ýsugengd á þeim svæðum sem togararallið er
stundað. Þessu er öfugt farið með
veiðisvæði krókabáta og því nauðsynlegt að sérstök ýsuívilnun
verði hjá línubátum. Þannig mundi vera
hægt að færa sóknina inn á þau svæði sem ýsan hefur fært sig og auka vægi umhverfisvænna veiða.
Það sem af er ári hafa krókaaflamarksbátar veitt 26% af ýsuaflanum, en
þeir hafa einungis 15,9% hlutdeild.
Steinbítur
– leyfilegur heildarafli verði 12 þús. tonn.
Það helsta sem fram kom í máli LS var eftirfarandi: Steinbítsveiðimenn hafa ekki merkt samdrátt í
steinbítsveiðum. Þeir benda hins vegar á
að útbreiðsla hans hafi breyst á undanförnum árum,
hann veiðist nú á mun fleiri stöðum en áður hefur verið. Stærðarsamsetning er jöfn. LS hefur tekið þá ákvörðun að leggja til að bein
sókn í steinbít með dregnum veiðafærum verði tafarlaust bönnuð. Strax þarf að samþykkja tillögur
Hafrannsóknastofnunarinnar um stækkun á
Látragrunnssvæðinu þar sem veiðar eru bannaðar yfir hrygningartímann.
Ufsi
– leyfilegur heildarafli verði 50 þús. tonn
Félagsmenn LS hafa ekki merkt að minni ufsi sé á ferðinni
en verið hefur á undanförnum árum.
Tillaga LS gengur því út á óbreyttan heildarafla auk þess að til
viðbótar kæmi handfæraafli sem veiddur er yfir sumarið. Ufsi veiddur á handfæri á tímabilinu arpríl –
ágúst teljist ekki til aflamarks.
Skötuselur
– leyfilegur heildarafli verði 4 þús. tonn
Grásleppusjómenn hafa miklar áhyggjur af aukinni gengd
skötusels á þeirra mið. Skötuselurinn er
yfirleitt fullur af rauðmaga og við hlið hans eru tæjur af
grásleppu sem hann hefur ælt úr sér þegar hann veiðist. Fljótt eftir að skötuselur hefur komið á
grásleppumiðin hverfur grásleppan en rauðmaginn vegna vöktunarhlutverks tekst á við
selinn sem endar í gini óvættsins.
Nauðsynlegt er að veiða selinn á grásleppumiðunum og má
kvótaleysi viðkomandi ekki koma í veg fyrir það. Krafa
LS er að skötuselur sem meðafli við grásleppuveiðar reiknist ekki til
aflamarks.