Hinn 21 nóvember 1997 voru Alþjóðasamtök strandveiðimanna og fiskverkafólks (WFF) stofnuð í Nýju-Dehlí á Indlandi. Nokkrum árum síðar fékk þessi dagsetning viðurkenningu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem Alþjóðadagur fiskveiða (World Fisheries Day).
Dagurinn er helgaður baráttu smábátaveiðimanna, frumbyggjaveiða og fiskverkafólks fyrir grundvallar réttindum sínum, bæði hvað varðar aðgengi að miðum og viðurkenningu á rétti þeirra innan laga og reglna. Sá pottur er víða illilega brotinn, en eftir tilkomu samtakanna hefur ýmislegt þokast í rétta átt.
Fyrstu árin voru það einungis Alþjóðasamtökin sem héldu upp á daginn með einhverjum hætti – mómælagöngum, útifundum, kvikmyndahátíðum og jafnvel uppsettum leikritum. Sú ánægjulega breyting hefur orðið á að fjölmörg samtök hafa tekið upp á því að efna til atburða hinn 21. nóvember.
Undanfarna daga hefur staðið yfir ráðstefna í Nýju-Dehlí þar sem strandveiðimenn fjalla um þau mál sem heitast á þeim brenna. Eitt af því er sú tilhneiging að stórfyrirtæki sölsi undir sig veiðirétt og veiðisvæði strandveiðimanna og jafnvel ferðmannaiðnaðurinn er þar ekki undanskilinn. Keyptar eru upp heilu strandlengjurnar og fiskimennirnir í kjölfarið útilokaðir frá því að nota þær sem útræði.
Til er hugtakið „land grabbing en alþjóðasamtökin hafa komið inn í umræðuna hugtakinu „sea grabbing.
Myndirnar eru frá aðalfundi WFF sem
haldinn var í Ecuador í janúar sl.
Háborðið: Við setninguna var sjávarútvegsráðherra
Ecuador ásamt nokkrum háttsettum embættismönnum.
Fjölmenni var við setninguna sem fram fór í strandbænum Salinas.