21. nóvember: Alþjóðadagur strandveiðimanna

Í dag, 21. nóvember er alþjóðadagur strandveiðimanna.  

Alþjóðasamtök strandveiðimanna (WFF) ákváðu á síðasta degi stofnfundar í Nýju Delhi á Indlandi, 21. nóvember 1997 að helga þann dag smábáta- og strandveiðum. Ári síðar, hinn 20. nóvember 1998, lýsti þáverandi forseti Bandaríkjanna, Bill Clinton, því yfir að 21. nóvember skyldi framvegis helgaður bandarískum fiskimönnum.
WFF hefur reynt eftir bestu getu að koma því í kring að deginum sé sérstaklega fagnað í einhverju þeirra landa sem eru meðlimir.  Í ár verður talsvert um að vera:  
Í Senegal, Pakistan og Indlandi eru kröfugöngur og útifundir.  Þar er þess krafist að ríkisstjórnir virði og lögfesti réttindi smábáta- og strandveiðimanna, sem og þeirra byggðarlaga sem treysta alfarið á slíkar veiðar, bæði til eigin neyslu sem og útflutnings. 
Sumar kröfurnar hljóma vafalaust ótrúlega hér uppi á Klakanum:  
Ein er sú að sjóher Sri Lanka hætti að myrða indverska fiskimenn og að fiskimönnum verði sleppt sem haldið er í fangelsum t.d. í Pakistan, án þess að þeim séu birtar minnstu ákærur. 
 
Yfirgangi Evrópusambandsins er og víða mótmælt, en flotar frá ESB löndum eru iðulega komnir upp í kálgarða (kannski frekar pálmagarða) og veiða þar af miklum krafti þangað til mjög er dregið af aflabrögðum.  Þá hverfa þeir, væntanlega til jafn huggulegra verkefna annars staðar.
 
Screen Shot 2011-11-21 at 3.00.24 PM.png 
Myndin en frá Karachi í Pakistan fyrr í dag.  Eins og sjá má eru konur í miklum meirihluta, en í umfjöllun um fiskveiðar vill hlutur þeirra oft gleymast.  Þær eru þó ekkert síður mikilvægar en sjálfir fiskimennirnir.  Þær sjá iðulega um allt eftir að karlarnir hafa komið aflanum á land.  Réttindi kvenna við fiskveiðar og fiskvinnslu eru nú komin á dagskrá Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO.  Enginn vafi er á því að tilkoma WFF og annarra samtaka sem vinna á alþjóðlegum vettvangi að þessum réttindum á drjúgan þátt í því að svo er komið. 

Yfir helmingur af þeim fiski sem árlega er veiddur er til manneldis í heiminum kemur af smábátum og strandveiðibátum.