48 dagar til strandveiða

Þann 22. júlí sl. birtist í Morgunblaðinu grein eftir Örn Pálsson framkvæmdastjóra LS.  Yfirskrift greinarinnar er:
295729509_5232486006838291_2483489212949172399_n.png
Útspil Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um að hún hyggist leggja fram frumvarp í haust sem taki upp svæðaskiptingu á nýjan leik kom verulega á óvart.  Yfirskrift á Pistli ráðherra í Morgunblaðinu 6. júlí var:  „Afnám svæðaskiptinga fullreynt.  Ástæður segir ráðherra vera að afnám svæðaskiptinga, það er að ráðherra væri ekki lengur heimilt að skipta veiðiheimildum niður á svæði, hafa misheppnast.  
Veiðikerfið fest í sessi
Ekki eru liðin nema fjögur ár frá því horfið var frá fyrirkomulaginu sem ráðherra boðar.  Árið 2018 var ákveðið að heimila strandveiðar í 48 daga það árið – 12 daga í hverjum mánuði maí – ágúst.  Alþingi var ekki í vafa ári síðar, að afnema sólarlagsákvæði laganna og byggja á hinu nýja kerfi til framtíðar.   Niðurstaðan var m.a. byggð á eftirfarandi umsögn Landhelgisgæslunnar til atvinnuveganefndar Alþingis:
„Landhelgisgæsla Íslands telur að reynsla síðasta sumars, þar sem leyfðir voru 12 dagar innan hvers mánaðar, hafi verið góð og að veiðidagar hafi verið valdir með tilliti til veðurfars og sjólags í stað þess að keppast um úthlutaðan kvóta á hverju svæði eins og gert var árin á undan. Sú staðreynd að smábátar eru minna á sjó í brælu stuðlar beint og óbeint að því að auka öryggi sjófarenda og með því að binda þessi ákvæði í lög er öryggið því tryggt enn betur.
Reynslan af svæðaskiptingunni
Rétt er að rifja hér upp tvö síðustu ár svæðaskiptingarinnar.  
Ráðherra ákvað að viðmiðunarafli 2017 yrði 9.759 tonn.  Heimildunum var skipt á svæðin fjögur og deilt á hvern mánuð fyrir sig.
  
Úr Fiskifréttum copy.png
Jafnt og nú voru flestir bátar gerðir út á svæði A.   Þar náðist aldrei heill mánuður, veiðar stöðvaðar 24. maí, 21. júní, 14. júlí og 15. ágúst.  Á svæðum B og C lauk veiðum 17. ágúst að loknum 10 af 18 dögum sem veiðar voru heimilaðar.  Viðmiðunarafli dugði hins vegar á svæði D.  Fjöldi daga að meðaltali 10 í hverjum mánuði á svæði A og 12 á svæðum B og C.  
Á strandveiðum 2016 voru veiðar stöðvaðar á öllum svæðum í ágúst.  Svæði B fékk þá aðeins fjóra daga, A og C fimm daga.  Svæði D fékk hins vegar fæsta daga það árið, ellefu í maí og ágúst, sjö í júní og fjóra í júlí, alls 31 dag sem róðrar voru heimilaðir.
Alþingismenn sáu að staðan sem upp var komin kallaði á breytingar.  Þar vó hæst hið óæskilega kapp í að komast í róður þegar stutt var í lokun.  Það voru ekki góð skilaboð þegar landkrabbinn spurði:  „Var ekki tvísýnt um veður í morgun?  „Jú, ég myndi jafnvel segja það hafi verið þrísýnt!   Segir allt sem segja þarf.   Jafnframt þótti rétt að auka á jöfnuð innan kerfisins að öll svæðin fengju jafnmarga daga til róðra.  
Að þessu sögðu kemur það á óvart að ráðherra hyggst leggja fram frumvarp í haust um að taka upp svæðaskiptingu á nýjan leik.  Nær væri að boða endurbætur á núverandi kerfi þar sem 48 dagar væru festir í lög óháð hversu mikið er veitt hverju sinni.  Það myndi gera kerfið enn öruggara og minnka ójafnvægi milli svæða hvað varðar aðgengi að góðum afla.  
Við slíka breytingu er ástæðulaust að óttast ofveiði þar sem eingöngu er veitt með handfærum, lengd hvers róðurs takmarkaður við 14 klukkustundir og aflamagn við 774 kg af þorski sem og að veiðarnar aðeins heimilaðar í fjóra daga í viku.  Auk þessa aftrar veður og fiskgengd á grunnslóð því að „skammturinn náist í hverjum róðri.  Veisla eins og nú er hjá flestum útgerðum strandveiðibáta er því ekki sjálfgefin og því gremjulegt að ekki finnist leið til að koma í veg fyrir stöðvun veiðanna sem að óbreyttu lýkur áður en júlí er allur, eða mánuði áður en ætluðum veiðitíma er lokið.  
Vægi smábáta i veiðum á að auka
Í þeirri fiskveiðistjórn sem við búum við hafa minni útgerðir átt erfitt uppdráttar.  Framboð á leigukvóta hefur farið minnkandi, aflahlutdeildir stendur þeim ekki til boða og himinn og haf er á milli samkeppnishæfni þeirra og stórútgerðarinnar.  
Vægi smábáta í byggðakvótum hefur farið minnkandi og það á jafnframt við um skel- og rækjuuppbætur.  Það er skoðun mín að ráðherra eigi strax í haust að leggja fram frumvarp sem tryggir 48 daga til strandveiða og að aðrar heimildir innan 5,3% pottsins verði eingöngu nýttar af dagróðrabátum eins og gert er í línuívilnun.  Þannig gæti ráðherra eflt útgerð smábáta, aukið verðmæti landaðs afla og framboð á ferskum fiski svo eitthvað sé nefnt. Ég er ekki í vafa um að það kæmi hinum dreifðu byggðum vel samhliða sem það gæfi ungu fólki tækifæri til að hefja útgerð án þess að vera háð stórútgerðinni með veiðiheimildir.  
295729509_5232486006838291_2483489212949172399_n (1).png