6.000 tonn af makríl til færaveiða

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra hefur undirritað reglugerð um stjórn makrílveiða íslenskra fiskiskipa árið 2014.  
Samkvæmt reglugerðinni verður veiðifyrirkomulag nánast óbreytt hjá bátum sem stunda færaveiðar.  Undantekningar eru eftirfarandi: 
Hámarksafli aukinn úr 3.200 tonnum í 6.000 tonn 
Veiðitímabilum fjölgað – júlí, ágúst og frá 1. september sérstakt tímabil
Vertíðin 2013 þróaðist hins vegar svo að þegar útgefið aflamagn  var að fullu veitt ákvað ráðherra að heimila áframhaldandi veiðar til 20. september.  Uppbótartímabilið skilaði 1.500 tonnum sem skipti verulegu máli varðandi heildarafkomu vertíðarinnar. 
Í reglugerðinni nú er gert ráð fyrir þremur veiðitímabilum í stað tveggja í fyrr.  Aflamagninu 6.000 tonnum er skipt niður á þau á eftirfarandi hátt:
1. tímabil:  1. júlí – 31. júlí 1.300 tonn
2. tímabil:  1. ágúst – 31. ágúst 3.000 tonn
3. tímabil:  1. september – 31. desember 1.700 tonn
Náist ekki viðmiðun á einu tímabili færist það sem eftir stendur yfir á næsta tímabil.
Í reglugerðinni er eins og á síðasta ári ákvæði sem heimilar ráðherra að ráðstafa ónýttum heimildum milli flokka, megi ætla að skip í viðkomandi flokki muni ekki geta veitt það aflamagn sem tilgreint er.  Alls eru flokkarnir fjórir:
1. Færabátar 6.000 tonn, 4,1% af heildarúthlutun
2. Skip sem landa til vinnslu í landi 7.917 tonn,  5,4% af heildarúthlutun
3. Vinnsluskip sem fengu leyfi sbr. 3. tl. 2. gr. reglugerðar nr 233/2011 30.682 tonn, 20,1% af heildarúthlutun. 
4. Flottrolls- og nótaskip sem veiddu makríl á árunum 2007, 2008 og 2009 103.121 tonn, 69,9% af heildarúthlutun.
Smábátaeigendur líta björtum augum til komandi makrílvertíðar og gerir LS ráð fyrir að ekki færri en 100 bátar muni stunda veiðarnar.  Markaður fyrir færaveiddan makríl er vaxandi og verð stöðugt. 
Þeir sem ætla á makríl í sumar er skylt að sækja um leyfi til Fiskistofu samkvæmt auglýsingu sem birt verður 30. apríl nk.