Á valdi óttans – að veiða eða veiða ekki

Í helgarblaði Morgunblaðsins, 26. nóvember s.l. birtist grein eftir Sveinbjörn Jónsson frá Suðureyri, sem m.a. er fyrrverandi trillukarl.  Fyrir all mörgum árum kynnti Sveinbjörn þá skoðun sína, eftir athuganir, að þorskstofninn í Barentshafi myndi verða stór og öflugur innan skamms, en þetta var á þeim tíma sem Norðmenn skulfu á beinunum yfir því að þorskstofninn þeirra væri hruninn og eins og venjulega, allt fiskimönnum að kenna.  Eins og allir vita í dag, hitti Sveinbjörn naglann þráðbeint á hausinn en Hafró og aðrir gerðu ekkert með það sem hann sagði.  Nú hefur Sveinbjörn skrifað aðra grein undir titlinum sem er fyrirsögnin hér að ofan.  Tíu dagar eru liðnir frá því að hún birtist, en viðbrögð líffræðinga og fiskifræðinga eru hingað til engin. 

Hér er greinin í heild sinni:
„Nú er rúmur aldarfjórðungur síðan Íslendingar byrjuðu að feta sig inn á fiskveiðistjórnun sem gengur í daglegu tali undir nafninu kvótakerfið. Fyrst voru sett lög til skamms tíma en þegar sá tími var að renna út var ákveðið að halda tilrauninni áfram eftir mikil átök.

Mér er sérstaklega minnistæð ræða sem þáverandi framkvæmdastjóri LÍÚ flutti á þingi félagsins eftir að hafa kynnt sér vísindalega nálgun Kanadamanna að viðfangsefninu. Inntak ræðunar var á þá leið að í Kanada væru menn ekki að véfengja vísindalega þekkingu, þeir ætluðu bara að veiða 250 þús. tonn af þorski til að geta eftir einhvern tíma veitt 700-800 þús. tonn á ári upp frá því. Síðan nefndi framkvæmdastjórinn Norðmenn sem víti til varnaðar og gaf í skyn að þeir væru búnir að eyðileggja Barentshafið.Staðfesta Kanadamanna lét ekki að sér hæða og innan nokkurra ára stöðvuðu þeir þorskveiðar til að nýta betur ávöxtunargetu hafsins.

Á Íslandi hertu menn tökin smátt og smátt. Áróðurinn um hinn gráðuga og óábirga sjómann sem tæki fiskinn okkar” án þess að leifa honum að njóta ávöxtunar hafsins var notaður til að kæfa allar mótbárur og umframafli umfram ráðgjöf notaður til að afsaka hve seint gekk að byggja upp þorskstofninn. Á tímabyli var því jafnvel haldið fram að ekki væri til svo dýrt fjármagn í veröldinni að ekki borgaði sig frekar að taka það að láni en veiða þorskinn, svo mikil væri ávöxtunargeta hafsins.

Norðmenn voru drulluhræddir um þessar mundir og ef þeim hefðu borist varnaðarorð framkvæmdastjórans til eyrna er ekki ólíklegt að þeir hefðu stöðvað veiðar líkt og Kanadamenn gerðu. Ef það hefði gerst er eins líklegt að þeir væru ekki byrjaðir að veiða þorsk aftur.

Niðurstaða síðustu tuttugu ára liggur nú fyrir. Þorskveiðar Kanadamann hafa verið svipur hjá sjón.

Íslendingar hafa verið á hálfum afköstum, fiktandi með bíómassa aflareglur og verndandi smáfisk ef hlutfall hans í veiðum verður of hátt. Hvílík snilld! Norðmenn, Rússar og aðrir hafa síðustu tvo áratugina tekið  12 milljónir tonna af þorski úr Barentshafsþorskstofninum sem sérfræðingar töldu í mikilli lægð í upphafi tímabilsins. Það er mín skoðun að ef þeir hefðu ekki veitt þennan fisk hefði megnið af honum aldrei getað orðið til og í besta falli ættu þeir þorskstofn sem væri lítið eitt stærri en hann er en í versta falli ættu þeir lítinn úrkynjaðan þorskstofn. Ef þetta er rétt skoðun er ljóst að veiðar sjómanna bjuggu til  megin hlutann af lönduðum þorski úr Barentshafinu síðustu tvo áratugina. Geri aðrir betur!

Það er eðli skynsamlegrar nýtingar að skapa rými fyrir nýjan vöxt og draga um leið úr orkusóun sem á sér stað ef of margir eru um hituna og auka þannig holdsköpun ( maðurinn eyðir samkeppni annaðhvort með fóðrun eða grisjun og fær í staðinn vöxt.). Jafnfram  má vera ljóst að hámarks hlutdeild í vextinum fæst með því að komast eins nálægt sólinni og kostur er. Þetta gildir líka innan stofna þar sem ljóst má vera að bak við hvert kíló af t.d. 10 ára þorski liggur mun meira fóður en bak við hvert kiló af 4 ára þorski svo ekki sé talað um seiði. Ellin er náttúrunni margfalt dýrari en æskan þegar kemur að bindingu orku.

Bankabækur hafsins hafa það eðli að þær gefa aðeins góða ávöxtun að tekið sé út af þeim. Ef það er ekki gert breytast þær í orkusóandi vígvöll lífsbaráttu þar sem lítil eða janvel neikvæð ávöxtun er möguleg. Skíðishvalir taka fæðu sína út úr vistkerfinu þar sem endurnýjunin er hröðust. Það er engin tilviljun að þeir eru stærstu skepnur sem þessi jörð hefur alið.

Ég tel líklegt að í Barentshafinu hafi orðið til um 15 milljónir tonna af þorski síðustu tvo áratugina (landaður afli + stofnstærðar aukning) vegna veiðana en ekki þrátt fyrir þær. Ef Norðmenn og Rússar hefðu látið undan ótta sínum um 1990 og stöðvað veiðar til að ávaxta fiskinn í hafinu hefði mjög lítill hluti þess þorsks getað orðið til.

Ef ég segði bændum að auka afrakstur túna sinna með því að hætta að slá myndu þeir eflaust hlæja að mér. Ef þeir færu að ráði mínu mundu þeir fljótlega þurfa að brenna tún sín til að ná upp ræktun á ný.

Hvers vegna ættu sjómenn að hafa samviskubit vegna skynsamlegra veiða sem skapa fisk?  Og hvers vegna kemst fiskifræðin upp með að mæra verndun og logna ávöxtun sem augljóst er að skapar oftar vanda í lífríkinu en leysir? Líffræðingar sem líta á manninn sem afgangs stærð þegar kemur að samspili hans við náttúruna ættu ekki að fá að koma nálægt ráðgjöf í nokkru landi.

Við þær aðstæður sem íslenska þjóðin hefur búið undanfarin þrjú ár er það hneiksli að ekki skuli veiddur meiri þorskur á Íslandsmiðum jafnvel þó sumir teldu sig taka með því einhverja áhættu.


Screen Shot 2011-12-07 at 9.43.45 AM.png
   Sveinbjörn Jónsson