Aðalfundur Strandveiðifélagsins Króks var á Patreksfirði sl. laugardag, 21. september. Þar voru að vanda líflegar umræður og mörg mál brotin til mergjar. Meðal tillagna sem fundurinn samþykkti voru:

• Áskorun til sjávarútvegsráðherra að auka veiðiheimildir í ýsu um 12 þús. tonn og steinbít 4.500 tonn.
Í greinargerð sem fylgir með segir að á liðnum árum hefur ýsa sem meðafli á línuveiðum orðið að miklu vandamáli þannig að ekki verður lengur við unað.
• Strandveiðar verði 4 daga í viku maí – ágúst með núgildandi takmörkunum um dagsafla.
• Aðalfundur Króks hvetur stjórn LS eindregið til að fylgja eftir stefnumiðum og samþykktum landssambandsins á umliðnum árum. Fundurinn lítur svo á að LS hafi verið í gegnum árin gæfa útgerðar smábáta og ein traustasta stoð sjávarbyggða vítt og breitt um landið.

Tryggvi Ársælsson Tálknafirði var endurkjörinn formaður Króks.